fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Er hann hinn nýi Obama?

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 31. október 2018 21:00

Beto O’Rourke.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beto O’Rourke berst nú hatrammlega fyrir að ná kjöri sem öldungadeildarþingmaður fyrir Texas í kosningunum sem verða í Bandaríkjunum í byrjun nóvember. Texas er sterkt vígi repúblikana og því ræðst O’Rourke ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann hefur verið þingmaður í fulltrúadeildinni síðan 2013 en vill nú komast í öldungadeildina. Kosningabarátta hans hefur vakið mikla athygli undanfarna mánuði og er O’Rourke orðinn einhvers konar pólitísk fígúra sem höfðar til margra innan og utan Texas. Hann þykir góður ræðumaður og hefur á stundum verið líkt við Robert F. Kennedy. O’Rourke hefur sett met í fjáröflun fyrir kosningarnar og hefur safnað miklu meira fé en helsti keppinautur hans í Texas, Ted Cruz.

Þegar lagt var upp í þessa vegferð leit út fyrir að O’Rourke væri að takast á við vonlaust verkefni. Síðast sigraði demókrati í kosningum um öldungadeildarsæti í Texas árið 1988. Ted Cruz á sér marga gagnrýnendur og er ekki sá vinsælasti en hann vann öruggan sigur í kosningunum 2012. En hinn orkumikli og brosmildi O’Rourke hefur lagt áherslu á jákvæðan boðskap í kosningabaráttunni og það hefur fallið vel í kramið í því pólitíska landslagi sem nú ríkir í Bandaríkjunum þar sem vantrú og öfgar ráða för.

O’Rourke er gamall pönkari og var í pönkhljómsveit á árum áður. Hann hefur nýtt tónlistarhæfileikana í kosningabaráttunni og söng til dæmis dúett með kántrístjörnunni Willie Nelson. Hann hefur gert mikið til að leggja áherslu á afslappaðan stíl framboðs síns og að það sé byggt á grasrótarhreyfingu.

„Það er enginn sem gerir skoðanakannanir fyrir mig. Ég geri ekki skoðanakannanir,“ sagði O’Rourke nýlega á kosningafundi.

 

Ted Cruz og O’Rourke
Tókust á í kappræðum í Dallas.

Ein helsta von demókrata

Demókratar vona að O’Rourke geti endurreist stolt þeirra og hefðir í Texas en ríkið var áður eitt af höfuðvígjum demókrata. Lyndon B. Johnson forseti var öldungadeildarþingmaður ríkisins árum saman. Lloyd Bentsen, fjármálaráðherra í stjórnartíð Bills Clinton, var öldungadeildarþingmaður ríkisins í rúmlega 20 ár.

Sjálfsöryggi og mælska O’Rourke hefur orðið til þess að bandarískir fjölmiðlar hafa grafið upp gamlar fréttir og umfjöllun og líkja O’Rourke við Barack Obama og jafnvel Robert F. Kennedy. Orðið „Betomania“ hefur verið notað um O’Rourke og vísar til skírnarnafns hans, Beto. Margir telja að hann sé vænlegur kostur demókrata þegar kemur að forsetakosningum 2020.

Ekki hefur það dregið úr áhuganum á O’Rourke að það er Ted Cruz sem hann berst við um öldungadeildarsæti. Cruz var kjörinn í öldungadeildina fyrir sex árum en hann var fulltrúi íhaldssamra afla í repúblikanaflokknum sem sóttu að miðjumönnum í flokknum. Þarna var hin svokallaða Teboðshreyfing að verki. Cruz er ekki vinsæll meðal allra repúblikana en hann varð fyrst landsþekktur 2016 þegar hann sóttist eftir að verða frambjóðandi repúblikanaflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna. Eins og kunnugt er beið hann lægri hlut fyrir Donald Trump í þeirri baráttu en Trump sótti hart að honum og sparaði ekki stóru orðin um Cruz og kallaði hann meðal annars „lygarann Ted Cruz“.

Þrátt fyrir að O’Rourke stæri sig af að reka aðeins kosningabaráttu á jákvæðu nótunum hefur hann tekið silkihanskana af sér að undanförnu og á kosningafundi nýlega gat hann ekki stillt sig um að segja að uppnefnið „lygarinn Ted Cruz“ hefði hlotið hljómgrunn því það væri satt.

Þegar Cruz og Trump tókust á í forvali repúblikana 2016 sagði Trump meðal annars að faðir Cruz hefði tengst Lee Harvey Oswald, sem var sakfelldur fyrir morðið á John F. Kennedy 1963. Þá sagði Cruz að kosningabarátta hans snerist um atvinnu, frelsi og öryggi í Bandaríkjunum en kosningabarátta Trump væri byggð á fölsuðu rusli úr gulu pressunni. En nú er öldin önnur og Cruz er orðinn mun blíðmæltari í garð Trump sem mætti einmitt á kosningafund í Texas á mánudaginn til að sýna Cruz stuðning.

 

Hefur safnað háum fjárhæðum

Ekki er víst að O’Rourke takist að sigra Cruz sem nýtur góðs forskots ef miða má við skoðanakannanir. En O’Rourke hefur afrekað svolítið í kosningabaráttunni sem hefur vakið mikla athygli í bandarískum stjórnmálum. Hann hefur safnað miklu meira fé í kosningasjóð sinn en nokkur annar frambjóðandi. Hann hefur nú þegar safnað 62 milljónum dollara. Þar af eru um 28 milljónir frá rúmlega 100.000 manns sem hafa lagt lágar upphæðir af mörkum, að hámarki 200 dollara hver.

Þetta hefur vakið mikla athygli eins og áður segir en innan demókrataflokksins eru uppi raddir um að betra væri að nota þessa peninga í öðrum kjördæmum þar sem demókratar eigi meiri möguleika á að sigra. Það sé frekar ólíklegt að þeir nái að sigra í Texas.

Þá hefur verið minnt á að O’Rourke sé ekki með öllu flekklaus. Houston Chronicle segir að hann hafi reynt að flýja af vettvangi umferðaróhapps árið 1998 en þá var hann undir áhrifum áfengis og lenti í óhappi.

Svo hefur digur kosningasjóður O’Rourke ekki náð að heilla Texasbúa alveg upp úr skónum ef miða má við skoðanakannanir. Samkvæmt Real Clear Politics þá sýna meðaltalsniðurstöður skoðanakannana að Ted Cruz njóti stuðnings rúmlega 50 prósenta kjósenda en stuðningur við O’Rourke er um 44 prósent. Það er því á brattann að sækja hjá honum en vika er langur tími í stjórnmálum og margt getur breyst á skömmum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“