Síðan heitir NaturistBnB og var komið á laggirnar af finnsku hjónunum Petri og Minna Karjalainen. Þau hafa verið virk í nektarlífsstílnum í tuttugu ár og áttuðu sig á því að það var gat í ferðamarkaðinum. Þau höfðu sjálf reynt að bjóða upp á valfrjálsa fatavist á AirBnB en án árangurs.
„Ég held að þetta sé mjög gott tækifæri til að fara til athyglisverðra staða og dvelja með fólki sem hugsar á sama hátt. Okkur fannst það svalt ef það væri til bókunarsíða, alveg eins og AirBnB, sem væri helguð þessum lífsstíl“ sagði Petri í samtali við bandarísku fréttatofuna CNN.
Síðan var opnuð fyrir tveimur vikum síðan og þegar eru komnar 135 eignir inn á hana frá öllum heimshornum, tréhús og ein snekkja. Flestar eignirnar eru í suðurhluta Evrópu í námunda við vinsælar nektarbaðstrendur. Engar íslenskar eignir eru komnar inn á vefinn eins og er. Petri segir:
„Þessar litlu eignir í miðjum borgum eru uppáhaldið mitt eins og er. Það eru nokkrar komnar í London, Amsterdam og New York.“
Það gefur auga leið að fólki er frjálst að vera nakið í þessum íbúðum en engu að síður eru regluverk í kringum þær en þær reglur eru þekktar í heimi nektarfólks. Hér eru nokkur dæmi:
„Þú verður ávallt að hafa handklæði meðferðis. Handklæðið setur þú undir þig hvar sem þú sest eða leggst niður. Alltaf nota handklæði!“
„Myndatökur eru bannaðar. Sumir vilja ekki enda allsberir í myndaalbúminu þínu.“
„Í fataheiminum er það er talið mjög dónalegt að glápa á líkama fólks á meðan þú talar við það. Í nektarheiminum á þetta sérstaklega mikið við. Haltu augnsambandi við þann sem þú talar við.“
„Ekki glápa því þá verður þú álitinn pervert.“
Í reglunum er einnig sérstaklega fjallað um hvað skuli gera ef karlmenn fá holdris.
„Þetta er reyndar mjög óalgengt, jafn vel hjá þeim körlum sem eru nýir í lífsstílnum. Ef þetta gerist þá skaltu hylja þig með handklæðinu. Þú manst að þú átt alltaf að hafa handklæði? Ef þú ert í sólbaði skaltu snúa þér á magann. Ef þú sérð einhvern sem er viljandi að sýna standpínuna sína, láttu gestgjafann vita. Þeir vita hvernig á að sjá um svoleiðis mál.“