fbpx
Þriðjudagur 22.apríl 2025
Fréttir

Vendingar í klósettmáli Ringo Starr – „Þættinum hafa borist nýjar ábendingar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 9. apríl 2025 10:00

Mynd: Skjáskot úr þættinum á RÚV á sunnudag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í þættinum Fyrir alla muni sem sýndur var á sunnudagskvöld á RÚV var fjallað um býsna áhugaverðan hlut sem geymdur er í Skógræktarstöðinni á Hallormsstað.

Um er að ræða gamalt ferðaklósett sem talið hefur verið tengjast Bítlinum Ringo Starr sem kom fram um verslunarmannahelgina 1984 í Atlavík.

Í þáttunum eru skoðaðir hlutir sem tengjast sérstökum atburðum í sögu þjóðarinnar og er óhætt að segja að ferðaklósettið sé einn þeirra. Í þættinum var reynt að komast að sannleikanum um klósettið og um leið var fræðst um útihátíðina sem Stuðmenn héldu þetta sumar árið 1984.

Segist þekkja klósettið

Viktoría Hermannsdóttir og Sigurður Helgi Pálmason eru umsjónarmenn þáttarins og birti Viktoría áhugaverða færslu á Facebook-síðu þáttarins í gærkvöldi þar sem hún varpar ljósi á ákveðnar vendingar í málinu.

„Þættinum hafa borist nýjar ábendingar varðandi ferðaklósettið sem geymt hefur verið í skógræktinni Hallormsstað frá Atlavíkurhátíðinni árið 1984 þegar Ringo Starr kom þar fram,“ segir Viktoría og bætir við að ábendingin hafi komið frá Jóhanni Hlíðari Harðarsyni.

„Hann segir að þetta ferðaklósett hafi alls ekki verið á Hallormsstað árið 1984 heldur árið 1985 og því ómögulegt að halda því fram að bítillinn hafi notað klósettið. Jóhann Hlíðar var að vinna í Skeljungsbúðinni í Síðumúla sumarið 1985 og segist þekkja klósettið þaðan. Hann hafi sjálfur farið með það í Atlavík,“ segir Viktoría sem hefur eftir Jóhanni Hlíðari eftirfarandi:

„Þannig er að ég fór á útihátíðina í Atlavík árið 1985. Ég vann það sumar, eins og mörg önnur sumur, í Skeljungsbúðinni í Síðumúla. Við seldum ferðaklósett meðal annars. Rétt fyrir lokun á föstudeginum, þegar ég var að fara að loka og hendast út á flugvöll með vinum mínum til að skemmta mér í Atlavík í 3 sólarhringa, hringir Jakob Frímann Magnússon í búðina. Stuðmenn voru komnir austur og án salernisaðstöðu við sviðið. Hann spurði hvort ég gæti sent þeim eitt ferðasalerni í snarhasti. Ég sagðist einmitt vera á leiðinni og tæki það bara með mér.“

Valdi sér lag að launum

Er haft eftir Jóhanni Hlíðari að hann hafi farið með ferðaklósettið með sér og setið með það í fanginu í flugvélinni á leiðinni austur. Hann hafi svo brugðið sér baksviðs í upphafi kvölds, afhent Jakobi klósettið og fengið að velja sér eitt lag að launum. Er tekið fram að lagið Í bláum skugga hafi orðið fyrir valinu.

Þá kemur fram í færslu Viktoríu að Jóhann Hlíðar hafi reynt að koma þessari ábendingu varðandi klósettið áleiðis en á það hafi ekki verið hlustað.

„Auðvitað þekkti ég klósettið. Og þetta var 1985 árið eftir að Ringo kom til Íslands. Þannig að hvorki hann né Barbara Bach hafa nokkurn tíma sest á þetta klósett, sama hvað menn fyrir austan segja,” er haft eftir Jóhanni Hlíðari.

Í lok færslunnar spyr Viktoría:

„Hvað segja áhorfendur um þetta? Er möguleiki að það hafi verið annað klósett í Atlavík árið á undan eða er um misskilning að ræða?“

Hér má sjá þáttinn frá því á sunnudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hvernig er hægt að skapa ungmennum heilbrigt val?

Hvernig er hægt að skapa ungmennum heilbrigt val?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Drápu 500 ára gamlan Íslending fyrir slysni – Bar nafnið Ming

Drápu 500 ára gamlan Íslending fyrir slysni – Bar nafnið Ming
Fréttir
Fyrir 4 dögum

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför