DV hefur heyrt af óánægju margra íbúa á Akranesi vegna ólyktar sem legið hefur yfir kaupstaðnum síðustu daga. Mun ástæðan vera sú að bændur í nágrenninu hafa verið að dreifa kjúklingaskít á túnin hjá sér og í óhagstæðri vindátt hefur lyktin borist yfir bæinn.
Rætt hefur verið um málið í íbúahópi Skagamanna á Facebook þar sem íbúar lýsa margir yfir óánægju sinni.
„Þetta er algjör viðbjóður. Get ekki haft gluggana opna. Fór í búðina og hélt ég myndi æla á leiðinni heim,“ sagði einn íbúi sem kvaðst hafa búið á Akranesi í þrjú ár og aldrei upplifað annað eins.
„Þó maður sé vanur ýmsu þá er þessi lykt einfaldlega eitthvað annað og bara því miður varla boðleg. Lyktin er rosalega sterk til dæmis uppi við Garðasel leikskóla og varla hægt fyrir börnin að vera úti fyrir fynyk,“ segir annar íbúi og bætir við:
„Og nei áður en einhverjir berja sér á brjóst og halda sig yfir allt og alla hafið og yfir aumingjakynslóðinni í dag sem þolir ekkert, að þá er ég bara sjálf úr sveit og kalla ekki allt ömmu mína. Þó áburður sé dýr í dag þá hlýtur nú að vera hægt að nota eitthvað annað en þennan viðbjóð.“
Þorsteinn segir það liggja fyrir að bændur í nágrenni bæjarins hafi tekið til sín kjúklingaskít sem þeir dreifa á sínar jarðir. „Það er í sjálfu sér ekki bannað, það er bara verið að nýta þennan áburð. Innfluttur áburður er náttúrulega gríðarlega dýr en þetta er vissulega mjög vond lykt í stuttan tíma meðan þetta er að lofta úr sér,“ segir hann og bætir við að þetta sé óheppilegt ef vindáttin er óhagstæð.
„Þá ætti auðvitað ekki að gera þetta en svo getur vindáttin líka breyst snögglega. Í starfsleyfum er það yfirleitt tekið fram að það eigi ekki að dreifa á þegar vindátt er óhagstæð,“ segir hann.
DV fékk ábendingu frá íbúa í bænum sem sagði að það væri hreinlega ekki hægt að vera með opinn glugga vegna lyktarinnar. „Þetta hefur oft verið slæmt en aldrei eins og núna. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ógeðsleg lykt,“ segir hann.