Þetta er mat bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW) en hún sendir frá sér daglegar greiningar á gangi stríðsins í Úkraínu.
Hugveitan segir að þessi vandamál geti ýtt undir að rússnesk stjórnvöld vilji semja um vopnahlé eða jafnvel frið.
ISW vísar til skýrslu frá Odni, þar sem kemur fram að Rússar hafi „orðið fyrir miklu tjóni í Úkraínu og að þeir þurfi að berjast með illa þjálfuðum nýliðum“.
Bandaríski hershöfðinginn Christopher Cavoli, yfirmaður bandaríska heraflans í Evrópu, hefur látið hafa eftir sér að Rússar hafi misst rúmlega 4.000 skriðdreka í Úkraínu. Hann sagði einnig að Rússar hafi átt 13.000 skriðdreka þegar stríðið hófst en nú séu þeir nærri því að eiga ekki lengur neina skriðdreka á lager.
Hann benti einnig á að Rússar hafi aukið framleiðslugetu sína á sprengjum, flugskeytum og drónum og að þeir séu að undirbúa sig undir að halda áfram sóknaraðgerðum í Úkraínu eða gera árás á NATÓ-ríki í framtíðinni.
Í skýrslunni kemur einnig fram að rússneskt efnahagslíf eigi í miklum vanda. Aðaláherslan er á hergagnaframleiðslu en það er á kostnað almenna geirans og að það geti orðið erfitt fyrir Rússa að laga þetta ójafnvægi.