Bónus hefur ákveðið að fagna nýjum einstaklingum með veglegri gjöf. Barnabónus er nýtt verkefni sem Bónus hefur hleypt af stokkunum til að styðja við bakið á barnafjölskyldum og létta þeim lífið.
„Barnabónus er veglegur upphafspakki með nauðsynlegum vörum sem ættu að nýtast vel hinu nýfædda barni og foreldrum þess á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu,“ segir Björgvin Víkingsson framkvæmdastjóri Bónus í tilkynningu og tekur fram að hugmyndin komi upprunalega frá Finnlandi þar sem nýburðar fá svokallað Barnabox sem hefur verið eitt þekktasta og áhrifamesta félagslega verkefni landsins frá því um miðja 20. öld.
Barnaboxinu var komið á fót í Finnlandi árið 1938 til að styðja við nýja foreldra og draga úr fátækt. Þannig átti að tryggja að foreldrar hefðu aðgang að nauðsynlegum vörum og búnaði og að öll börn fengju sömu tækifæri í upphafi, óháð efnahag foreldranna.
„Okkar Barnabónus er hugmynd af svipuðum toga, því okkur er annt um viðskiptavini og velferð þeirra. Við vonum að vörurnar í kassanum komi sér vel, en þær eru valdar í samvinnu við fagfólk.“
Bónus fékk meðal annars til liðs við sig Helgu Reynisdóttur ljósmóður. Hún segir í tilkynningunni: „Í boxinu verða vörur fyrir barnið en þessi tími, fyrst eftir fæðingu, er tími breytinga, undra og uppgötvana.“
Það sé mikilvægt fyrir foreldra að vera í jafnvægi og huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu. „Svona gjöf er stór liður í því að auka vellíðan á þessum tíma og létta á fjárhagsáhyggjum hjá nýbökuðum foreldrum.“
Í kassanum má meðal annars finna ungbarnagalla, bleiur, blautþurrkur, tannbursta og tannkrem, dömubindi, snuð, krem, andlitskrem fyrir móður, lekahlífar, Milt þvottaefni og svo fleira og fleira. Það eina sem þarf að gera er að skrá sig á bonus.is/barnabonus til að fá úthlutað Barnabónus. Andvirði hverrar gjafar er töluverður og fjöldi samstarfsaðila sem þarf til að koma svona stóru verkefni á laggirnar.
„Við erum afskaplega þakklát fyrir hve vel samstarfsaðilar okkar tóku í þessa hugmynd og hjálpuðu okkur að gera hana að veruleika,“ segir Björgvin en það sé mikil vinna á bak við verkefnið. Bónus naut aðstoðar fjölda sjálfboðaliða sem gefa vinnu sína til styrktar Gleym mér ei.
„Ein af lykilstöðum verkefnisins er að styðja við öll börn í landinu og því teljum við mikilvægt að styðja við bakið á öllum foreldrum og það er heiður að styrkja félag eins og Gleym mér ei,“ segir verkefnastjóri verkefnisins, Pétur Sigurðsson.
„Allt í allt gerum við ráð fyrir að gefa 5.000 Barnabónusbox á þessu ári, samtals að andvirði a.m.k. 150 milljóna króna,“ segir Björgvin. „Vonandi verða gjafirnar mikil búbót fyrir fjölskyldur á þessum tímamótum í lífi þeirra og létta undir með þeim, en eins og við vitum öll þá fylgir því ærinn kostnaður að eignast barn.“