„Eins og svo margt annað úr menningu svartra Bandaríkjamanna hefur orðið verið rifið úr upprunalegu samhengi og skrumskælt í þágu kapítalískra og íhaldssamra afla,“
segir Kári Emil Helgason um orðið Woke, sem hefur orðið ríkjandi í samfélagsumræðu hérlendis.
„Orðið var notað til að tákna þá sem hafa verið vaktir til vitundar um kerfisbundið óréttlæti sem var byggt inn í stjórnkerfi Bandaríkjanna sem takmarkaði frelsi og tækifæri svartra. Elstu prentuðu heimildir um það í þessari merkingu eru frá 1930 og hefur vísast verið notað í talmáli mun lengur (samanber nafnið á tungumálinu: afrísk-amerísk talmálsenska) og hefur þetta orð því líkast verið notað í MEIRA EN ÖLD áður en það náði til eyrna hvíts fólks.“
Í færslu sinni á Facebook ræðir Kári uppruna orðsins á ítarlegan hátt frá málvísindalegu sjónarhorni.
„Woke kemur úr mállýsku eða tungumáli sem kallast AAVE, sem útleggjast mætti sem afrísk-amerísk talmálsenska (e. African-American Vernacular English). AAVE er sjaldan rituð en hún er töluð af stórum hluta svartra Bandaríkjamanna. Flestir svartir Bandaríkjamenn eru að vissu leyti tvímæltir því oftast skiptir fólk úr AAVE í samskiptum við hvíta. AAVE er germanskt mál, náskylt staðlaðri ensku, en það hefur eigin málfræðireglur, eigin framburðarreglur og jafnvel mállýskumun milli svæða og þjóðfélagshópa.
AAVE er að miklu leyti upprunin í suður-bandarískum mállýskum (SBM) en mælendur málsins fluttust um allt landið eftir að þrældómur var aflagður. AAVE deilir ýmsum einkennum með SBM. Sem dæmi má nefna einföldun tvíhljóðsins [ai] (æ) í langt [a:] þannig ‘wide’ og ‘wad’ hljóma svipað (nema fyrra orðið hefur lengra sérhljóð) og fornafnið ‘I’ verður eins og langt ‘A’. Eins einfaldaðist tvíhljóðið [oi] í [ɑ] þannig að orðin ‘ball’ og ‘boil’ hljóma eins. Flestar mállýskur AAVE skortir líka r í lok atkvæða svipað og margar SBM og breskar mállýskur þannig að ‘sure’ verður ‘sho’ og ‘whore’ verður ‘ho’. Í sumum mállýskum er sama að segja um l í lok atkvæða þannig að ‘fool’ verður ‘foo’. En önnur einkenni eru einstök, eins og einföldum samhljóðaklasa í lok atkvæða, þannig að orðið ‘child’ er borið fram eins og það væri skrifað ‘chile’ (d-ið dettur niður) og ‘test’ er borið fram sem ‘tes’. Samhljóðaklasar sem innihalda s snúast stundum við þannig að ‘ask’ er borið fram ‘aks’ og ‘grasp’ er gjarnan borið fram ‘graps’. Annað áberandi atriði er að tannmæltu önghljóðin sem táknuð eru með th (eins og þ og ð á íslensku) verða ýmsist að t/d eða f/v (svipað og Cockney-enska frá London) þannig að ‘this’ er borið fram ‘dis’, ‘father’ er borið fram [fɑvə] og ‘nothing’ er borið fram ’nuffin’ – sem minnir á að -ng verður oftast að -n, sérstaklega í sagnendingunni -ing.
Málfræðilega er líka ýmislegt mjög áhugavert. Sagnbeyging er með allt öðrum hætti en í staðalensku. Flókið kerfi hjálparsagna gerir það af verkum að hægt er að ná fram mun nákvæmari tíðamerkingu en í staðalensku,“
segir Kári og kemur með nokkur dæmi.
Snýr hann sér síðan að orðinu woke:
„Með sögninni ‘wake’ er þátíðarmyndin ‘woke’ en myndin ‘woken’ er horfin. ‘Woke’ er sem sagt lýsingarháttur þátíðar í þessu tilviki og þýðir „sem hefur verið vakinn“.
Orðið var notað til að tákna þá sem hafa verið vaktir til vitundar um kerfisbundið óréttlæti sem var byggt inn í stjórnkerfi Bandaríkjanna sem takmarkaði frelsi og tækifæri svartra
Tekur hann dæmi um fleiri AAVE orð sem ratað hafa í íslenskt talmál, „eins og fam ‘fjölskylda/vinir’, lit ‘mjög skemmtilegt’, bruh ‘félagi, vinur’, bussin ‘æðislegt’, period ‘segðu ekki meir’ og bet ‘heldur betur’ – sem hvítt fólk (og ekki bara bandarískt, ég sé flest þessara orða notuð af Íslendingum reglulega) notar sem nýjasta nýtt í slangri en svartir hafa verið að segja í stundum meira en hálfa öld. Svört menning, t.d. tíska eins og langar neglur, stórir gulleyrnalokkar og stórar buxur og tónlist eins og rokk, djass, hipp-hopp og R&B mætir iðulega hornauga þangað til kapítalistum tekst að græða peninga á henni.“
Kári bendir þannig á að orðið woke er hluti af langri og flókinni sögu svartra Bandaríkjamanna.
„Skuggi fortíðar er langur og þessi saga virðist síendurtaka sig. Ég sé merkilegan samhljóm milli uppruna þessarar sorgarsögu, þrælahalds, þar sem fólk var slitið upp með rótum og neytt til að sinna vinnu fyrir hvíta og nú þar sem orð er rifið úr upprunasamhengi sínu og neytt til að sinna nýjum hlutverkum fyrir hvítar elítur.
Af því þetta orð er svo þrungið sögu og merkingu, bæði vegna uppruna þess sem á sér rót í tungumáli og menningu ákveðinnar þjóðar (svartra Bandaíkjamanna) og hins vegar merkingu sem hefur verið hlaðið á það af pólítískum andstæðingum réttindabaráttuhreyfingar svartra til þess að stjórna og kveða niður réttmæt mótmæli þeirra (gegn ofbeldi og ofríki lögreglu og yfirvalda) væri eflaust best fyrir Íslendinga að sleppa því algjörlega að reyna að flytja inn einmitt þetta orð. Það á sér engan stað í íslensku samfélagi. Þetta er ekki okkar orð, og þótt baráttan gegn rasisma sé barátta okkar allra, er best að eftirláta nákvæmlega þennan slag þeim sem hann tilheyrir.“