Héraðsdómur Suðurlands hefur orðið við þeirri kröfu lögreglunnar á Suðurlandi að þrír karlmenn sem sætt hafa gæsluvarðhaldi vegna manndráps sem framið var í síðasta mánuði í umdæminu skuli vera áfram í gæsluvarðhaldi næstu fjórar vikurnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Fram kemur að í gær hafi verið farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmönnunum vegna rannsóknar á umræddu máli er varði meinta frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp en það hafi komið upp 10. mars síðastliðinn. Héraðsdómur Suðurlands hafi síðan úrskurðað í gærkvöldi að mennirnir skyldu allir þrír sæta gæsluvarðhaldi næstu fjórar vikurnar á grundvelli almannahagsmuna.