Félag atvinnurekenda (FA) og Ríkisendurskoðun takast nú á um úttekt sem embættið birti í mars á síðasta ári um Íslandspóst. FA hefur sent erindi á innviðaráðuneytið þar sem því er haldið fram að Ríkisendurskoðun hafi skort hæfi til að standa að úttektinni. Eins hafi embættið skautað fram hjá þeim meginbeiðnum sem komu fram í skýrslubeiðni Alþingis. Ríkisendurskoðun sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem „tilhæfulausum aðdróttunum“ FA var hafnað með öllu. Ríkisendurskoðun tók þar fram að FA hafi ekki með nokkrum hætti reynt að rökstyðja endurteknar dylgjur sínar eða afla skýringa varðandi hlutverk eða stjórnsýslu embættisins.
Sjá einnig: Ríkisendurskoðun svarar aðdróttunum fullum hálsi og segir ásakanirnar alvarlegar
FA hefur nú svarað fyrir sig og vísa því á bug að hafa ekki rökstutt mál sitt eða leitað skýringa. Eftir að úttektin var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í mars á síðasta ári hafi FA sent nefndinni bréf þar sem athygli var vakin á meintu vanhæfi Ríkisendurskoðunar til að framkvæma úttektina. Ríkisendurskoðun hafi veitt Íslandspóst ráðgjöf við að stilla upp tölum í rekstri til að tryggja félaginu sem hæst framlög úr ríkissjóði. Alþingi hafi meðal annars falið Ríkisendurskoðun að kanna hvort framlög skattgreiðenda væru rétt reiknuð.
Erindi FA fylgdi minnisblað þar sem farið var ítarlega yfir úttektina og gerðar fjölmargar athugasemdir. Eins sendi FA nefndinni minnisblað sem félagið hafði tekið saman fyrir Ríkisendurskoðun.
„Þetta ætti að teljast sæmilega „málefnaleg og vel rökstudd“ gagnrýni, svo vísað sé til orðalags í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar.“
Ríkisendurskoðun haldi því fram að fjölmargar af spurningum Alþingis fyrir úttektina hafi lotið að málum sem þegar hafi verið tekin fyrir hjá öðrum eftirlitsaðilum. FA bendir á í minnisblaði að Alþingi hafi verið að biðja um skoðun á því hvernig framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu hefði verið háttað, eða í raun var óskað eftir eftirliti með eftirlitinu. Ríkisendurskoðun hafi ekki orðið við þeirri beiðni. Eins haldi Ríkisendurskoðun því fram að FA hafi ekki sett sig í samband við embættið. Það sé rangt. FA hafi sent Ríkisendurskoðun mikið af gögnum og átt fund með stofnuninni.
„Þegar afurðin lá fyrir, var ljóst að áhugi Ríkisendurskoðunar á réttum upplýsingum í málinu var enginn. FA sá því ekki tilgang í frekari samskiptum við stofnunina um þetta mál.
Það vekur furðu FA að Ríkisendurskoðun hafi ekki strax þegar skýrslubeiðni Alþingis lá fyrir gert þinginu grein fyrir því að annars vegar væri hún ekki hæf til verksins vegna starfa sinna fyrir Íslandspóst og hins vegar teldi hún ekki á verksviði sínu að svara spurningum þingsins. Það hefði þá verið hægt að leita annarra leiða við úttekt á framkvæmd og eftirliti með póstlögunum, sem þingið telur augljóslega, líkt og FA, að sé í ólestri.“
FA segist þó ósammála því að það sé ekki á verksviði Ríkisendurskoðunar að framkvæma verkefni sem þetta. Þetta snúist um meðferð skattpeninga sem hafa runnið til Íslandspósts og fjármagna „undirverðlagningu fyrirtækisins, sem bitnað hefur á keppinautum þess“.
FA segist þó fagna því að í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sé lagt til að Ríkisendurskoðun hætti að endurskoða félög og stofnanir ríkisins og einbeiti sér að stjórnsýslu- og rekstrarúttektum. Slík breyting sé til þess fallin að fækka hagsmunaárekstrum og koma í veg fyrir „vanhæfi eins og það sem blasið við í þessu máli.“
Á vefsíðu sinni hefur FA nú deilt erindi sem félagið sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 26. mars árið 2024 sem og þremur minnisblöðum, þar af tveim sem send voru Ríkisendurskoðun.