fbpx
Fimmtudagur 17.apríl 2025
Fréttir

Hefur verið strandaglópur á Keflavíkurflugvelli í rúma fjóra sólarhringa – Án brottfararspjalds og getur hvorki keypt sér vott né þurrt

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 8. apríl 2025 22:00

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albanskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið strandaglópur á Keflavíkurflugvelli frá því á föstudaginn á meðan að Útlendingastofnun hefur haft í skoðun hvort að vísa eigi honum úr landi. Maðurinn hefur í rúma fjóra sólarhringa mátt dúsa á D-svæði flugvallarins, fyrir flug utan Schengen, þar sem hann hefur vafrað um án farangurs síns. Hann er ekki með brottfararspjald og getur því hvorki keypt sér vott né þurrt en hefur fengið mat frá lögreglunni á vellinum á um það bil 12 klukkustunda fresti.

Seinnipartinn í dag var manninum svo vísað úr landi samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunnar sem og látinn sæta endurkomubanni til Íslands í þrjú ár. Hann mun þó dvelja á flugvellinum þar til yfirvöld skipuleggja för hans af landi brott í fylgd lögreglumanna. Lögmaður mannsins segir að meðferðin á honum sé óboðleg og meðalhófs sé ekki gætt, þá byggi ákvörðunin um brottvísun augljóslega á röngum forsendum.

Forsaga málsins er sú að Albaninn kom til landsins um kl. 14 föstudaginn 4. apríl síðastliðinn og höfðu tollverðir afskipti af honum við komuna og kölluðu síðan lögreglu til. Gaf sá albanski upp villandi upplýsingar, meðal annars þess efnis að hann hafi ekki komið til landsins áður og einnig vafðist honum tunga um tönn varðandi tilgang Íslandsferðarinnar.

Áður við sögu

Lögregla komst fljótlega að því að Albaninn hafði komið við sögu hennar hérlendis áður, meðal annars undirgengist sektargerð vegna vörslu og dreifingu fíkniefna sem og fyrir að keyra yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þá hafði hann legið undir grun um að hafa framið alvarlega líkamsárás sem og setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um kynferðisbrot. Maðurinn var þó aldrei ákærður í þessum málum og endaði með því að fá greiddar 1 milljón króna í bætur frá ríkinu vegna síðastnefnda málsins.

Eftir að legið hafði verið yfir máli Albanans í sólarhring var honum loks tilkynnt að til greina kæmi að honum yrði vísað úr landi og var honum gert að bíða örlaga sinna í flughöfninni. Þá var farangur hans gerður upptækur sem og veski hans.  Úrvinnsla málsins hefur síðan tekið rúma þrjá sólarhringa til viðbótar.

Albaninn ætlaði aðeins að heimsækja Ísland í nokkra daga en hann átti síðan bókað flug til Gdansk seinnipartinn í dag. Var honum hins vegar synjað um að fara í flugið á meðan beðið yrði eftir ákvörðun Útlendingastofnunar.

Vísað burt

Úrskurður stofnunarinnar barst svo seinnipartinn í dag en þar var manninum formlega vísað úr landi og gert að sæta þriggja ára endurkomubanni til Íslands. Í úrskurðinum er hins vegar vísað til þess að maðurinn hafi verið ákærður fyrir áðurnefnt kynferðisbrot sem á ekki við rök að styðjast.

Gunnar Gíslason, lögmaður mannsins, er ómyrkur í máli um meðferðina á skjólstæðingi sínum. „Þetta er náttúrulega óboðleg meðferð á manninum,“ segir Gunnar og bætir við að lögregla hafi í engu gætt meðalhófs í málinu. Skjólstæðingur hans geti hvorki keypt sér vott né þurrt og sé háður matargjöfum frá lögreglunni sem hafi aðeins borist á um það bil 12 klukkustunda fresti og þá stundum eftir ítrekun lögmannsins. Þá hafi maðurinn loks fengið aðgang að farangri sínum til að hafa fataskipti eftir fjögurra sólarhringa dvöl á flugvellinum.

Gunnar sagði að ákvörðunin um brottvísun yrði kærð til Kærunefndar útlendingamála en sagði ljóst að sama hver niðurstaðan þar yrði þá myndi skjólstæðingur hans fara fram á skaðabætur vegna meðferðarinnar.  Hann sagði að blessunarlega væri þessi meðferð sem skjólstæðingurinn hans hefur þurft að upplifa sjaldgæf en ekki óþekkt.

„Það fá nánast allir svipaða meðferð, en fá þó að fara sjálfviljugir burt ef þeir kjósa svo og hraðari afgreiðslu sinna mála. Fæstir eru lengur en sólarhring á flugvellinum,” segir Gunnar.

DV óskaði eftir skýringum á málinu frá Lögreglunni á Suðurnesjum en fyrirspurninni hefur ekki enn verið svarað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína