Karlmaður hefur verið ákærður fyrir brot á barnaverndarlögum og brot gegn blygðunarsemi vegna þess sem hann sagði við barn í strætisvagni. Einnig er hann ákærður fyrir fíkniefnalagabrot.
Atvikið átti sér stað að kvöldi fimmtudagsins 13. október árið 2022 í strætisvagni sem ekið var um götur Reykjavíkur. Maðurinn var þar farþegi í vagninum ásamt 13 ára stúlku.
Samkvæmt ákærunni sem héraðssaksóknari hefur birt manninum hafi hann sagst geta riðið henni í rassinn og þannig sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi. Hafi það verið til þess fallið að særa blygðunarsemi hennar.
Að mati saksóknara telst athæfið varða við bæði barnaverndarlög og hegningarlög, það er ákvæði er varðar blygðunarsemisbrot. Gerð er einkaréttarkrafa fyrir hönd barnsins upp á 1,5 milljón króna í bætur.
Einnig er maðurinn sakaður um brot á fíkniefnalögum. Það er fyrir að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum 0,81 grömm af amfetamíni sem lögregla fann við leit á honum.
Er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku efnanna.