Í skýrslunni voru settar fram fullyrðingar um að Trump hefði átt í samstarfi við Rússa í tengslum við forsetakosningarnar 2016 og að Trump hefði tekið þátt í „afbrigðilegu kynlífi“ í Rússlandi.
Einnig kom fram að Vladímír Pútín „styddi og stýrði“ aðgerð sem hefði að markmiði að gera Trump að forsetaefni og hafi aðgerðin varað í minnst fimm ár.
Margt af því sem kemur fram í skýrslunni hefur aldrei verið staðfest að sögn The Guardian.
En málshöfðun Trump endaði ekki vel fyrir hann því í febrúar 2024 vísaði breski hæstaréttardómarinn Karen Steyn kærunni frá og sagði að ekki lægu fyrir „óyggjandi rök“ sem styddu að málið yrði rekið fyrir dómi.
Niðurstaðan var að Trump þyrfti að greiða tæpan helming kostnaðarins við málaferlin en það vildi hann ekki. Vegna þess að hann vildi ekki greiða kostnaðinn var hann útilokaður frá þinghaldi, sem fór fram í síðustu viku, þar sem dómarinn kvað upp úr um að Trump skuli greiða allan málskostnaðinn en hann svarar til um 110 milljóna íslenskra króna.
Dómarinn sagði upphæðina vera „sanngjarna“ og að 12% dagvextir verði reiknaðir á hana þar til Trump innir greiðslu af hendi.