Úkraínubúar telja það nánast óhjákvæmilegt að Trump verði fljótlega aftur fúll út í Zelenskyy og stöðvi aftur vopnasendingar til Úkraínu. Hvað Zelenskyy varðar, þá er aðalverkefni hans þessa dagana að halda Trump góðum eins lengi og hægt er til að tryggja áframhaldandi vopnasendingar.
Trump stöðvaði vopnasendingarnar tímabundið í mars til að þvinga Zelenskyy að samningaborðinu. Úkraínubúar áttu engan annan kost en að gera það sem Trump vildi. Því reynir Zelenskyy nú að halda Trump góðum til að vinna tíma og tryggja áframhalandi vopnasendingar.
En stemmningin er slæm meðal úkraínskra stjórnmálamanna. Nýlega lagði Trump fram nýja tillögu um aðgang Bandaríkjamanna að auðlindum í Úkraínu og minnir hún einna helst á algjöra yfirtöku Bandaríkjanna á úkraínsku efnahagslífi. Þessu á Zelenskyy erfitt með að kyngja.
Úkraínubúum finnst Trump draga taum Pútíns og draumurinn um sanngjarnan friðarsamning hangir á bláþræði í huga landsmanna. Af þessum sökum vinnur Zelenskyy með bæði skammtíma og langtíma áætlun. Hann reynir að halda Trump góðum eins lengi og hægt er en samtímis reynir hann að styrkja bandalagið við ESB-ríkin.
Vonin er að ESB geti á einhverjum tímapunkti fyllt í skarð Bandaríkjanna þegar kemur að vopnasendingum.
Úkraínskir stjórnmálamenn undirbúa sig nú undir sviðsmynd þar sem þeir neyðast til að hafna friðarsamningi sem verði gerður á grunni skilmála Pútíns. Það myndi eflaust reita Trump til reiði og valda nýrri diplómatískri krísu á milli landanna. Hún gæti haft alvarlegar afleiðingar.