„Það er skrítið þegar sjávarútvegsfyrirtæki á Neskaupsstað Fjarðabyggð skilar 11.000 miljón króna hagnaði og á sama tíma er auglýst eftir starfsmanni brothættra byggða á Stöðvarfirði Fjarðabyggð. Það fer ekki saman hljóð og mynd,“ svo hljóðar færsla sem Ívar Ingimarsson gerði við auglýsingu frá Samtökum sjávarútvegsins sem gefin var út til höfuðs yfirvofandi hækkun á veiðigjöldum. Færsla Ívars var síðar fjarlægð.
Ívar, sem gat sér gott orð sem atvinnumaður í knattspyrnu og síðar sem framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu á Austurlandi, vekur athygli á þessu í færslu á samfélagsmiðlum. Hann er alinn upp á Stöðvarfirði og hefur því reynslu af því að búa í sjávarþorpi þar sem stórútgerðin lokaði. „Þar var frystihús, togari, vélaverkstæði, netaverkstæði, bræðsla, skreiðarvinnsla, kaupfélag, banki, pósthús. Þetta er allt farið og öllu lokað og enn þá í dag er hægt að kaupa stór einbýlishús í þorpinu á 25-30 miljónir,“ skrifar Ívar.
Hann rifjar síðan upp eldri færslu sína þar sem hann veltir því fyrir sér hvort að hagræðing sé alltaf það töfratól fyrir heildina sem hagfræðin boðar.
„Hagfræðin segir að allt þurfi að vera hagkvæmara og arðbærara ásamt því að vaxa svo við getum haldið áfram að bæta lífsgæði okkar. Nú síðast heyrði ég þetta í fréttum, ef við virkjum ekki meira getum við ekki bætt lífsgæði okkar. Við getum ekki farið í orkuskipti og nýtt öll okkar tækifæri nema að virkja 124% meira en við gerum núna, og í leiðinni gengið á náttúru okkar sem bætir lífsgæði okkar meira en nokkuð annað.
Ég hugsaði með mér, er ekki eitthvað rangt við þetta. Og ég held að það sé eitthvað mikið rangt við þetta og það eru fleirri á þeirri skoðun meðal annars bandaríski hagfræðingurinn Robert Reich sem fer yfir málin í myndinni Inequality for all. Mynd sem ég segi að eigi erindi við alla.
Ef arðurinn af því að virkja meira fer í vasa fárra þá bætast ekki lífsgæði þjóðarinnar sjálfkrafa. Ekkert frekar en þegar litlu sjávarþorpunum var lokað í nafni hagræðingar sem fór meira og minna í vasa örfárra einstaklinga, og situr þar í miljörðum talið.
Spurningin hlýtur að vera hversu mikið má hagræða svo hagræðing verði slæm fyrir meirihlutann? Ef meira og meira af því sem verður til við þessa hagræðingu fer í vasa örfárra, hvernig nýtiast það þá meirihlutanum? Ekkert sérstaklega vel og það er sýnt svo vel í þessari mynd.
Þessi mynd er um Bandaríkin, og sem betur fer erum við ekki þar. En við stefnum óþarflega hratt í þá átt. Þeir sem eiga miljarðana þetta 1% er að stinga af, og of mikil hagræðing í þágu þeirra er held ég ekkert spes fyrir meirihluta þjóðarinnar.
Of mikill ójöfnuður er ekki góður fyrir neinn,“ skrifar Ívar.