Fyrrum vinur milljarðamæringsins Elons Musk hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því sem hann telur að sé leynilega áætlun auðkýfingsins varðandi afskiptin af bandarískum stjórnmálum. Sem yfirmaður sérstakrar deildar ríkisskilvirkni (DOGE) hefur Musk nú nánast ótakmarkað vald til að skera niður fjárlög alríkisins. Hefur hann meðal annars sagt upp þúsundum ríkisstarfsmanna.
Dr. Philip Low, stofnandi og forstjóri heilaeftirlitsfyrirtækisins NeuroVigil, var náinn vinur Musk í áratug áður en vinslit urðu. Low ræddi við þáttinn 60 Minutes á sunnudagskvöldið og lýsti áhyggjum sínum af því hvað suður-afríski frumkvöðullinn gæti gert með þetta nýfengna vald.
Low kynntist Musk árið 2011 og varð þeim umsvifalaust vel til vina. Þeir skemmtu sér grimmt og gerðu ýmislegt ruglað að sögn Low en lögðu sig samtímis alla fram við vinnu sína..
Samband þeirra súrnaði hins vegar þegar Musk stofnaði fyrirtækið Neuralink í samkeppni við fyrirtæki Low. Þá segist Low hafa tekið eftir breytingum í fari Musk, hann hafi farið að koma illa fram við fólk og sú hegðun hafi versnað á Covid-tímabilinu.
„Hann var farinn að vera agressífur og vondur við fólk sem vildi honum vel,“ segir Low og segist hafa gengið á Musk varðandi þessa hegðun. Musk hafi gengist við hegðuninni en breytti ekki af leið og í raun og veru versnaði hegðunin.
Low komst að því að í samkeppninni var Musk farinn að grafa undan fyrirtæki hans bak við tjöldin og þar með slitnaði vinasambandið.
Þekkjandi Musk segir Low að hann gruni að markmið auðkýfingsins, með afskiptum sínum af stjórnmálum, sé að veikja þá sem geta veikt hann.
„Hann boðar opinberlega að hann sé að spara peninga skattgreiðenda. En það sem hann er að gera er að draga úr fjármögnun ríkisstofnanna sem eiga að vera með eftirlit gagnvart fyrirtækjum hans,“ segir Low.
Hann segir að orð Musk varðandi ást sína á að spara skattfé og algjöru tjáningafrelsi séu hreint kjaftæði. Auk þess að veikja stofnanir er hann að ýta undir ýmsar öfgafullar skoðanir sem séu honum að skapi á samfélagsmiðlinum X og banna aðrar á bak við tjöldin.
Og Low sendir varnaðarorð til forsetans Donald Trump.
„Ég held að hann sé að nýta sér Trump til að veikja stjórnarskránna og að lokum mun hann snúa sér að Trump sjálfum,“ segir Low.
Hann segist þekkja Musk of vel til þess að þegja. Hann sé reiðubúinn til að gera allt til þess að auka og tryggja völd sín.
Þá segist hann fullviss um að Trump sé meðvitaður um hættuna sem stafar af Musk. Rétt eins og þegar eigandi hættulegs hunds segir að hann sé vel þjálfaður en veit vel af hættunni sem af honum stafar. Hins vegar nýtur hann góðs af gjörðum Musk eins og er.
„Hann er hættulegur, mjög hættulegur. Hvíta húsið er hans stærsta fjárfesting,“ segir Low.