Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fagnar rekstrarniðurstöðu Eflingar fyrir árið 2024, en reksturinn var jákvæður upp á tæpan 1,3 milljarða og eigið fé nam tæpum 17 milljörðum. Sólveig segist þakklát fyrir þær áskoranir sem hafa fylgt formennsku Eflingar og rifjar sérstaklega upp innanbúðarátök innan félagsins þar sem Sólveig og félagar hennar tókust á við „gömlu hirðina“.
Sólveig fjallar um þetta í langri færslu á Facebook. Þar segir hún að árið 2018, þegar hún var kjörin formaður, hafi þeir sem áður stýrðu félaginu fengið hana á heilann. Þetta fólk hafði áður fengið að reka Eflingu eins og því sýndist og tóku því illa þegar Sólveig Anna tók við.
„Gamla hirðin sem hafði rekið Eflingu líkt og sína prívat eign frá stofnun félagsins fékk taugaveiki-kast yfir því að missa yfirráðin og hóf, með gamla skrifstofustjórann fremstan í flokki, það sem aðeins er hægt að kalla ofsóknir gegn mér, innan skrifstofu Eflingar “
Ein ástæðan fyrir þessum ofsóknum var sú að Sólveig Anna neitaði að endursemja um starfslok við gamla skrifstofustjórann. Hann var kominn á aldur og hafði fengið starfslokasamning upp á 9 mánuði. Nokkru eftir að gengið var frá þessum samningi hafði skrifstofustjórinn samband við Sólveigu og vildi fleiri mánuði.
„Ég hafnaði að sjálfsögðu kröfunni um feitari starfslokasamning en það varð til þess að brjálsemin jókst mikið – m.a. með viðtölum við ónafngreinda starfsmenn um framkomu mína í Morgunblaðinu, sem og „fréttum“ um andstyggilegt þjófseðli mitt. Gamli skrifstofustjórinn lét þá fjárkúgunartaktík ekki nægja, heldur endursendi kröfuna um meiri peninga linnulaust á mig, starfsfólk Eflingar sem og forystufólk hreyfingarinnar.“
Sjá einnig: Sólveig skýtur til baka:
„Ég get ekki blokkað Þráinn Hallgrímsson út úr lífi mínu en mikið vildi ég óska þess“
Næst fjallar Sólveig um „gamla fjármálastjórann“ sem hafi ekki verið tilbúinn að veita Sólveigu upplýsingar um fjármál Eflingar. Loks ákvað Sólveig að þetta gengi ekki lengur og bauð fjármálastjóranum starfslokasamning upp á 9 mánuði.
„Því var hafnað og fjármálastjórinn fór í veikindi. Í veikindunum svokölluðu neitaði hún að vera í samskiptum við mig, neitaði m.a. að segja frá því hvernig hægt væri að opna peningaskápinn sem að hún hafði á skrifstofu sinni. Þess má geta að vegna þess að gamla forysta Eflingar hafði ákveðið að veita sjálfri sér „allt það besta af báðum mörkuðum“ eins og það var kallað, átti fjármálastjórinn mjög ríkulegan veikindarétt, eða þann sama og tíðkast á opinbera markaðnum, þrátt fyrir að samkvæmt ráðningarsamningi væri hún á kjörum almenna markaðarins. Stuttu eftir að hún veiktist af tap-sárindunum barst mér bréf frá lögmanni hennar, Láru V. Júlíusdóttur, þar sem fram kom að ef ég teldi best að fjármálastjórinn léti af störfum skyldi Efling greiða henni laun í 4 ár, eða samtals 55 milljónir. Ég hafnaði þessari gjörspilltu kröfu að sjálfsögðu – og hófst þá nýr þáttur í söngleiknum „Sólveig er sannkallað svín, réttnefn´á han´er Stal-ín“ þar sem fjölmiðlaumfjöllun um gúlag-uppsetningu og viðbjóðslegt eðli mitt varð sífellt meira áberandi.“
Sjá einnig: Sólveig um meintar lygasögur – „Ég varð mjög sjokkeruð og eiginlega alveg miður mín“
Sólveig hafi ekki tekið mark á þessum fjárkúgunartilraunum þeirra sem áður stjórnuðu Eflingu og fyrir vikið fékk hún á sig skotmark og var máluð sem vondi karlinn í fréttaflutningi mánuðum saman. Þetta hafi gert störf hennar erfiðari. Líklegra hefði verið auðveldara að láta undan þessum milljóna kröfum fyrrum starfsmannanna en Sólveig hefði frekar sagt af sér formennsku en að láta undan. Formaður megi ekki láta kúga sig.
„Ástæða þess að ég rifja þetta upp á laugardagsmorgni er ekki sú að ég sé í upp-veltingum og sjálfsvorkun. Ég fór að hugsa um þessa snarrugluðu atburðarás vegna þess að ég er stolt af Eflingu og stöðunni eins og hún er núna. Vegna þess að þrátt fyrir allt er ég þakklát fyrir þær áskoranir sem á vegi mínum og félaga minna urðu – stolt vegna þess að við gáfumst ekki upp og létum ekki eiginhagsmunaseggi og vitleysinga neyða okkur til að fara gegn eigin samvisku og gildum. Við vörðumst og við börðumst. Og vegna þess að við gerðum það er Efling betra félag en það hefur nokkru sinni verið.“