Kristján Berg Ásgeirsson, einnig þekktur sem Fiskikóngurinn, er ekki sammála fullyrðingu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um að hækkun veiðigjalda þýði að Ísland ætli að færa sjávarútveginn í átt til þess sem tíðkast í Noregi þar sem ríkissjóður þarf að halda fiskvinnslunni uppi með styrkjum. Sjálfur hafi hann rekið fiskvinnslu í 35 ár og aldrei þurft styrk þrátt fyrir að kaupa alltaf á hæsta verði.
Kristján skrifar á Facebook:
„Ríkisstyrktar fiskvinnslur!
Er ekki allt í lagi með ykkur ??
Ég hef rekið fiskvinnslu í 35 ár. Aldrei fengið neinn styrk, kaupi alltaf á hæsta verði, og sel hann.
Ég þarf ekki á neinum ríkisstyrk að halda.
Hvernig í ósköpunum eiga þá þessar útgerðarvinnslur að þurfa á ríkisstyrk að halda. Þessar útgerðir eru að fá fiskinn á 30-60% lægra verði heldur en ég er að kaupa minn fisk inná.“
Kristján bendir á að ef útgerðin treystir sér ekki til að vinna fiskinn og borga fólki mannsæmandi laun án þess að fá ríkisstyrki þá geti Kristján sjálfur tekið verkefnið að sér. Útgerðin getur þá veitt fiskinn og Kristján verkað hann.
„Ef þeir treysta sér ekki til þess að vinna fiskinn og greiða fólki mannsæmandi laun án ríkisstyrkja, þá skal ég taka það að mér að gera þetta.
Sjáið þið bara um að veiða fiskinn, ég skal flaka hann og selja á hæsta verði hvar sem er í heiminum.
Ég get lofað ykkur því að það verður hagnaður á hverju ári og allir fá mannsæmandi laun og ríkið fær helling í kassann.
Það verður að landa afla á fiskmarkaðina til þess að aðilar eins og ég og mitt fyrirtæki getum búið til verðmæti.
Strandveiðiaflann á að skylda til þess að landa ÖLLUM á fiskmarkaðina.
Með þessu verða sjálfstæðir einkaaðilar sterkir og það byggjast upp sérhæfðar fiskvinnslur um land allt.
Það er bjart framundan ef það er hlustað á alvöru viðskiptafólk, með kraft, þor og dug til þess að búa til mestu verðmæti úr okkar íslenska fiski.
Ekkert fokkings væl í okkur. Gefið okkur bara tækifæri á að bjóða í allan veiddan afla við Íslandsstrendur.
Með kveðju
Fiskikóngurinn, Kristján Berg“