fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Fulltrúar Carbfix sátu fyrir svörum á Húsavík eftir að hafa sett Hafnarfjörð á ís – Spurt um kostnað og öryggi

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 4. apríl 2025 15:30

Edda Aradóttir Pind forstjóri Carbfix sat fyrir svörum. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúafundur var haldinn á Húsavík í gær, fimmtudaginn 3. apríl, til að kynna starfsemi Carbfix. Fyrirtækið horfir til iðnaðarsvæðisins á Bakka eftir að hætt var við byggingu Coda Terminal í Hafnarfirði.

Edda Aradóttir Pind forstjóri Carbfix, Sævar Freyr Þráinsson forstjóri móðurfélagsins Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri kynntu fyrirhugaða niðurdælingu við Húsavík á íbúafundi í gær. Einnig sátu þau fyrir svörum á fjölmennum fundi og voru gestir bæði áhugasamir og gagnrýnir.

Mikil mótmæli íbúa og að lokum andstaða bæjarfulltrúa í Hafnarfirði varð til þess að Carbfix ákvað að salta fyrirhugað niðurdælingarverkefni sunnan við Vallahverfið. Hafa fulltrúar fyrirtækisins sagt að þeir vilji læra af því ferli og passa upp á að kynna önnur verkefni vel strax á fyrstu stigum.

Gera ekki kröfu um kostnað

Eitt af því sem íbúum var umhugað um var kostnaðurinn. Meðal annars hverjir munu borga fyrir verkefnið.

Að sögn Eddu eru það viðskiptavinir Carbfix sem munu borga fyrir móttöku koldíoxíðs. Carbfix muni byggja verkefnið upp sjálft með fjármögnun en samningar við viðskiptavini muni standa undir tekjustreyminu til að borga fjárfestinguna til baka. Séu þetta langtímasamningar líkt og þekkist í orkuverkefnum.

Í tengslum við verkefnið í Hafnarfirði bárust fréttir af miklum kostnaði sem sveitarfélagið hugðist axla við framkvæmdir á nýrri Straumsvíkurhöfn.

Edda sagði Carbfix myndi ekki gera neinar fyrir fram kröfur á sveitarfélagið um að axla ábyrgð á uppbyggingu innviða eins og nýrri höfn. Ef stór skip, líkt og þarf til að ferma koldíoxíðið, kæmu að höfninni þyrfti líklega að dýpka hana og þá yrði að semja um kostnað við það. En það væri hins vegar ekki eina leiðin sem væri fær. Einnig sé hægt að afferma skip án þess að þau komi að landi.

Varðandi Hafnarfjörð sagði Edda að sveitarfélagið hefði sjálft lagt upp með þróun og hönnun á nýrri Straumsvíkurhöfn, verkefni sem átti sér langan aðdraganda, og hafi í raun verið langt um fram það sem Carbfix hefði þurft til þess að taka á móti efni.

Svæðinu ekki lokað

Þá var íbúum umhugað um öryggi. Til að mynda hvað gerðist ef það yrði slys eða leki. Hvort stórt svæði gæti lagst í eyði.

Sögðu fulltrúar Carbfix að verkefnið væri öruggt. Verið væri að dæla niður vökva og verkefnið líktist að mörgu leyti jarðhitaverkefni.

Svæðinu yrði ekki lokað, nema rétt svæðinu við hafnarbakkann þegar afferming færi fram. Svæðið við borteigana yrði opið og þar væri tækifæri til þess að byggja upp hjólastíga eða eitthvað annað.

Vélfræðingur, með reynslu af niðurdælingu vökva og gass, spurði úr sal hvað gerðist ef efnið myndi leka út í andrúmsloftið.

Var því svarað með því að nemar væru í rörunum sem myndi loka fyrir. Aðeins sé hætta á því að efnið sem er inni í rörunum sjálft myndi leka út, en það jafngildi ekki meira en útblæstri bíla í einu póstnúmeri í Hafnarfirði.

Yrði snúið við

Hreinleiki efnisins vær mikið til umræðu í tengslum við verkefnið í Hafnarfirði og Húsvíkingar höfðu einnig áhuga á að vita hvernig það yrði tryggt og hvað myndi gerast ef efni myndi ekki uppfylla skilyrði.

Fullvissuðu fulltrúar Carbfix þá um að efnið yrði mælt við affermingu og ef það myndi ekki uppfylla skilyrði þá yrði skipinu snúið við. Það væri á ábyrgð sendanda að taka við því.

Einnig var spurt um hvort Carbfix hefði einhverja stefnu varðandi viðskiptavini. Það er hvort það væri tryggt að efnið kæmi ekki úr vopnaiðnaði.

Var því svarað á þá leið að val á viðskiptavinum færi eftir svokölluðu ESG matskerfi Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki yrðu tekin inn fyrirtæki sem væru í grænþvotti. Einnig þyrftu fyrirtækin að standast kröfur Nýsköpunarsjóðs Evrópusambandsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt