fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Dómur féll í meiðyrðamáli: Máttu segja að nágrannakonan væri andlega veik

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. apríl 2025 12:30

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra um að sýkna hjón af kröfu nágrannakonu þeirra um meiðyrði, fyrir að hafa sagt að hún væri andlega veik.

Málsaðilar bjuggu í þriggja hæða fjölbýlishúsi á Akureyri. Ágreiningur kom upp á milli þeirra og konunnar og kærði hún þau til kærunefndar húsamála. Í greinargerð hjónanna til kærunefndar féllu ummæli sem urðu konunni tilefni til að stefna þeim fyrir meiðyrði. Í greinargerðinni segja þau:

„Samskipti okkar við eiganda íbúðar 201 hafa því miður verið erfið frá fyrsta degi og sáum við strax að hún væri andlega veik.“

Krafðist konan 1.750.000 króna í miskabætur vegna ummælanna. Sagði hún að ummælin fælu í sér ólöglega meingerð gegn henni.

Landsréttur tók tillit til þess samhengis sem ummælin höfðu fallið í, þ.e. eftir að konan hafði kært fólkið til kærunefndar húsamála og sakað íbúa fjöleignarhússins um skemmdarverk og lygar. Í niðurstöðu Landsréttar segir:

„Af gögnum málsins verður ráðið að sameigendur fjöleignarhússins höfðu átt í erjum um langa hríð og leitast stefndu í greinargerðinni við að skýra það ósætti frá sínu sjónarhorni. Þegar litið er til þess samhengis sem ummælin voru sett fram í og eins og fyrirliggjandi gögnum er háttað er ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að stefndu hafi verið að lýsa skoðun sinni á ástæðu ósættis aðila. Þau hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna og verði ekki krafin frekari sönnunar þar um. Er og til þess að líta að nefndarmenn í kærunefndinni eru bundnir trúnaði um erindi sem nefndinni berast. Þá liggur ekkert fyrir um að ummælunum hafi verið dreift en nafnleyndar er gætt við birtingu úrskurða nefndarinnar. Að þessu virtu verður í ljósi þeirra sjónarmiða sem líta ber til þegar veginn er rétturinn til tjáningarfrelsis á móti friðhelgi einkalífs að álíta að sú tjáning sem um er deilt rúmist innan þess frelsis sem stefndu njóta samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Takmörkun tjáningar þeirra með ómerkingu ummæla eða skyldu til greiðslu miskabóta telst þannig ekki uppfylla skilyrði um nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.“

Eru stefndu því sýknuð af kröfum ósáttu nágrannakonunnar og þarf hún að greiða þeim 500 þúsund krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.

Dómana í málinu má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt