fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Blaðamaður Heimildarinnar hefur kært morðhótun Írisar Helgu til lögreglu – „Prinsippafstaða“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. apríl 2025 10:00

Íris Helga Jónatansdóttir. Mynd: Skjáskot YouTube.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamaður Heimildarinnar, Valur Grettisson, hefur kært Írisi Helgu Jónatansdóttur, sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna ásakana um umsáturseinelti, til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fyrir morðhótun.

Þetta kemur fram í prentútgáfu Heimildarinnar. Segir að Íris Helga hafi hótað að koma heim til blaðamannsins og drepa hann ef hann leiðrétti ekki rangfærslu í frétt um að Íris Helga hefði undirritað að gangast undir nálgunarbann, svokallaða Selfoss-leið.

Einnig kemur fram að Íris Helga hefur birt mynd af blaðamanninum og fjölskyldu hans á samfélagsmiðlareikningi sínum auk þess sem hún ýjaði að því í tölvupóstssamskiptum að hún geti hugsað sér að sækja um starf kennara í sama skóla og synir blaðamannsins stunda nám.

Í frétt Heimildarinnar kemur einnig fram að Írisi Helgu hafi verið birt Selfoss-leiðin, sem felur í sér nálgunarbann á hana gagnvart Garpi Ingasyni Elísabetarsyni, en hann steig fyrst fram og sakaði Írisi Helgu um umsáturseinelti.

„Það er prinsippafstaða að kæra hótanir þessu tagi til lögreglu,“ sagði Valur í stuttu samtali við DV. Hann vill ekki láta hafa mikið eftir sér um málið og vísar til umfjöllunar Heimildarinnar um það. Hann segir þó að hann sýni því umburðarlyndi ef viðmælendur hans sýni vanstillingu enda oft um erfið mál að ræða og blaðamenn séu í ákveðinni valdastöðu gagnvart almenningi. Hins vegar sé farið yfir ákveðin mörk þegar lífláti er hótað. Segir hann að þegar hann spurði Írisi Helgu gagnrýninna spurninga hafi hún orðið mjög æst  á örfáum sekúndum og sagt við hann að ef hann myndi ekki leiðrétta fréttina þá „kem ég heim til þín og fokking drep þig.“

Sjá einnig: Mál Írisar Helgu vindur upp á sig – Boðið að samþykkja nálgunarbann og sagðist saklaus af umsáturseinelti degi síðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt