Enn eru að mælast um 80-120 skjálftar á hverri klukkustund í kvikuganginum og rétt fyrir klukkan sex í morgun voru þeir orðnir rúmlega 600 talsins frá miðnætti.
Þetta kemur fram í yfirliti náttúruvárvaktar Veðurstofu Íslands sem barst fjölmiðlum klukkan sex í morgun.
Í yfirlitinu kemur fram að skjálftarnir dreifist nokkuð jafnt frá Stóra Skógfelli í SV hluta gangsins og norður fyrir Keili á NA hluta gangsins. Dýpi skjálftanna er áfram stöðugt á um 4-6 kílómetra dýpi að jafnaði.
Stærð skjálftanna frá miðnætti er undir 2 að stærð, ekki hefur mælst skjálfti yfir 3 að stærð síðan klukkan 14:20 í gær, 2. apríl, en sá skjálfti var gikkskjálfti rétt NA við Eldey. Gikkskjálftum við Reykjanestá og Eldey hefur farið fækkandi og tæplega 30 skjálftar mælst frá miðnætti.
Engin virkni hefur sést á gossprungunni sem opnaðist norðan Grindavíkur í fyrradag en enn má greina glóð í nýja hrauninu og rýkur upp úr því á mörgum stöðum.