Sala malbikunarstöðvarinnar Höfða, stöðvun styrkja til Golfklúbbs Reykjavíkur og fækkun borgarfulltrúa er á meðal þeirra tillagna sem almenningur hefur sent inn til borgarstjórnar. Reykjavíkurborg leitar eftir tillögum frá fólk um hvernig sé hægt að spara og nýta fé betur í sveitarfélaginu.
„Ég legg til að borgarfulltrúum verði fækkað í 15,“ er tillaga eins manns til borgarstjórnar eins og sjá má á samráðsvefnum. Sumar tillögurnar eru faldar en aðrar aðgengilegar.
Hugmyndin er ekki ný af nálinni. Borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 23 fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018. Þykir mörgum fulltrúarnir of margir, sem og fulltrúar í mörgum smærri sveitarfélögum einnig. Hafa ber þó í huga að breytingin var gerð á Alþingi með sveitarstjórnarlögum en ekki í sveitarfélögunum sjálfum.
Önnur kona leggur þetta einnig til. Sem og að laun borgarstjóra verði lækkuð niður í 1,5 milljón krónur á mánuði. Sem væri um helmingun launanna.
Ein kona leggur til að kannaður verði möguleikinn á að spara í ljósanotkun hjá mörgum stofnunum á vegum borgarinnar. Í mörgum grunnskólum sé til að mynda hálfgerð „flóðlýsing.“
„Hún er algjörlega óþörf og verið að kasta dýrmætum fjármunum í vitleysu. Fyrir utan það að svona mikil lýsing er kuldaleg, óþægileg og alls ekki til þess fallin að láta fólki líða vel,“ segir konan.
Fleiri ábendingar hafa borist um skólana. Til dæmis varðandi framkvæmdahliðina, það er að til staðar yrði húsvarðateymi sem gæti sinnt ýmsum störfum inni á leikskólum eins og að pússa og mála gluggakistur, veggfesta hillur og fleira.
„Að kalla til verktaka í hvert skipti sem rukkar þrjátíu þúsund krónur fyrir að skipta um eina ljósaperu er út í hött,“ segir konan sem kom með þessa ábendingu.
Nokkrir nefna útvistun. Til að mynda útvistun á þrifum á leikskólum sem hafi verið ábótavant.
„Ég tel að það væri ódýrara og til bóta ef ráðinn væri húsvörður í leikskólanna t.d. væri 1 húsvörður með 6-8 skóla í sama hverfi sem gæti sinnt smáverkum sem þarf að gera og hefði utanumhald um þau verk sem unninn eru í skólanum,“ segir ein kona.
Einn maður leggur til að borgin hætti útvistun nauðsynlegrar þjónustu. Til dæmis í ræstingum og akstri almenningsvagna. Þá segir hann útvistun og rekstur götulýsingar furðulega.
„Mér finnst mjög illa farið með opinbert fé að hluti þess fari í að greiða fjármagnseigendum arð. Þetta er eiginlega alveg galið að láta sér detta í hug að almenningur borgi skatta sem renna beint í vasa einhvers fólks úti í bæ!“ segir hann.
Ein kona, leikskólakennari í Reykjavík, stingur upp á samnýtingu kennsluefnis fyrir leikskólana. Það er safn eða leigu.
„Skólar sem eiga of mikið af einhverju eða eru hætt að nota eitthvað kennsluefni gætu losað sig við á þetta safn og skólar skipst á efnivið. Ég veit af geymslunni. En spyr mig stundum þurfa allir skólar að eiga allt eða gætum við skipst á,“ segir leikskólakennarinn. „Stundum eru skólarnir bara að vinna með ákv. kennsluefni í smá tíma svo breytist starfsmannahópurinn og það er farið að vinna með eitthvað annað. Mikið af þessum efnivið er rosalega dýr en ef borgin ætti frekar bara nokkur sett sem gætu gengið á milli myndi fjármagnið nýtast betur held ég.“
Einn maður stingur upp á því að samningar við hugbúnaðarfyrirtæki verði endurskoðaðir. Nefnir hann að á síðasta ári hafi Reykjavíkurborg greitt 550 milljón krónur til OK, Advania og Origo.
„Þessi fyrirtæki greiddu sér arð upp á tæpa 3 milljarða árið 2023, þau fá einnig háar upphæðir í skattaafslætti og opinbera styrki,“ segir hann. „Nýsköpunar- og þjónustusvið Reykjavíkurborgar er með 1,3 milljarða og það er stórt spurningarmerki hvað þessir fjármunir fara í. En eins og ofan kemur er einnig verið að eyða nokkur hundruð milljónum á ári í innkeypta hugbúnaðarþjónustu. Í ársskýrslu 2023 frá þessu sviði tala þau um að hafa „hugrekki til að leiða breytingar“, en það held ég að fáir biðji þá um.“
Ein af þeim sem sendir inn tillögur er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar. Nefnir hún meðal annars að leggja niður mannréttindaskrifstofu sem sé verkefni sem ríkið hafi tekið yfir, úthýsa rekstri bílastæðahúsa eða selja þau, selja malbikunarstöðina Höfða, endurskoða eignarhald á dótturfyrirtækjum Orkuveitunnar og stofna B-hlutafélag utan um eignir borgarinnar.