Elisabeth Braw, sænskur sérfræðingur í öryggismálum, skrifaði grein í Politico þar sem hún varar við fyrirætlunum Rússa varðandi Svalbarða og bendir á að Pútín og hans fólk hafi lengi gjóað augunum á Svalbarða.
„Það leikur enginn vafi á að Svalbarði er afskekktur og kaldur en staðsetning eyjuþyrpingarinnar er mikilvæg og Rússland gæti vel notað hana sem æfingasvæði (til að ögra Vesturlöndum, innsk. blaðamanns). Þess vegna er kominn tími til að við veitum því miklu meiri athygli hvað er að gerast þar,“ skrifar hún.
Snemma í mars sakaði Rússland Noreg, sem fer með stjórn Svalbarða, um „hernaðarlega og pólitíska skipulagningu“ á Svalbarða í samvinnu við Bandaríkin og NATÓ og sagði þetta brjóta gegn Svalbarðasáttmálanum.
Svalbarðasáttmálin veitti Noregi yfirráð yfir eyjunum og um leið var aðgengi ríkisborgara og fyrirtækja frá öðrum löndum að eyjunum tryggður.
Frá 1927 til 1998 voru Sovétríkin og Rússland með námubæinn Pyramiden á Svalbarða. Hann var síðan yfirgefin en á síðasta ári reisti forstjóri rússneska ríkisnámufélagsins Arktikugol tvo sovéska fána í bænum.
Í maí 2023 efndu Rússar til heræfingar í bænum Barentsburg en þar bjuggu aðallega Rússar árum saman.
„NATÓ-ríkin og önnur bandalög myndu vera skynsöm ef þau byrja að íhuga hvernig brugðist verður við ef Rússar láta til skara skríða gegn einu afskekktasta svæði NATÓ,“ skrifar Braw.