Hæstiréttur hefur hafnað að taka mál Mohamads Thor Jóhannessonar, áður Kourani. Mohamad fékk átta ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps og fleira.
Mohamad stakk mann í versluninni OK Market árið 2024. Eftir það var einnig fjallað um hann í tengslum við hótanir í garð Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara. Sagði Helgi Magnús að Mohamad hefði ofsótt sig og fjölskyldu sína um árabil.
Auk manndrápstilraunarinnar var Mohamad sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, sjö brot gegn valdstjórninni, að gabba lögreglu og tvær líkamsárásir. Málin voru sameinuð í Landsrétti og voru þar staðfestir dómar héraðsdóms.
Mohamad vildi að Hæstiréttur tæki málið fyrir vegna þess að málið hefði verulega þýðingu fyrir hann og taldi hann að niðurstaða Landsréttar væri röng að efni og formi til. Vísaði hann til þess að við þinghaldið hafi fimm lögreglumenn gætt hans í salnum sem hafi leitt til þess að dómendur hafi hræðst hann, þar með væru þeir vanhæfir til að dæma í málinu.
Þá taldi hann borin von að fangelsisrefsing myndi skila árangri. Einsýnt væri að hún myndi ýta undir andleg veikindi hans og yrði honum skaðleg.
Eins og áður segir hafnaði Hæstiréttur að taka málið. Það hefði ekki verulega almenna þýðingu.