Reykjavíkurborg stendur sig langbest þegar kemur að uppbyggingu félagslegra íbúða, ef frá eru talin tvö lítil sveitarfélög á landsbyggðinni. Nærri 5 prósent af fullbúnum íbúðum eru félagslegar leiguíbúðir.
Þetta kemur fram í svari Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingar og fyrrverandi borgarstjóra.
Á höfuðborgarsvæðinu er uppbygging félagslegra leiguíbúða langsamlega mest í Reykjavík. Það er 20,7 á hverja 1000 íbúa. Í Kópavogi er hlutfallið 11,3, í Hafnarfirði 8,9, í Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi 3,1 og aðeins 2,2 í Garðabæ.
Í Reykjavík eru 2.870 félagslegar leiguíbúðir eða 4,9 prósent af fullbúnum íbúðum. Til samanburðar eru aðeins 44 slíkar íbúðir í Garðabæ og hlutfallið 0,6 prósent.
Skagaströnd er það sveitarfélag sem hefur hlutfallslega flestar félagslegar leiguíbúðir, eða 15 talsins sem gera 7 prósent af öllum íbúðum á staðnum. Þar á eftir kemur Súðavík með 5,4 prósent.
Í Reykjanesbæ er hlutfallið 2,6 prósent, á Akureyri 3,4 prósent, á Akranesi 1,1 prósent og í Árborg aðeins 0,3 prósent.