Keyrt var á mann á hjóli í gær nálægt Sjálandsskóla í Garðabæ. Ökumaðurinn flúði af vettvangi. Maðurinn sem keyrt á hefur kært málið en varar fólk einnig við gatnamótunum sem eru óvanaleg og flókin.
Þór Heiðar Ásgeirsson var að hjóla yfir götuna Löngulínu í Sjálandshverfinu í Garðabæ rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun þegar ekið var í veg fyrir hann. Kom hann svo hratt að Þór gat ekki stoppað hjólið nógu snemma. Féll hann ofan á bílinn og svo í götuna.
Í stað þess að aðgæta með Þór þá keyrði ökumaðurinn í burtu, suður Löngulínu. Um var að ræða gráan jeppa, annað hvort Toyota Land Cruiser eða Nissan Patrol telur Þór.
Þór slasaðist við þessa byltu og er með mikil eymsli í rifjum. Einnig skemmdist hjólið hans, það er framgjörðin á því er beygluð.
Í samtali við DV segist Þór vilja finna ökumanninn og hefur kært málið til lögreglunnar. En það er brot á 14. greinar umferðarlaga að flýja af vettvangi glæps. Þar segir:
„Vegfarandi sem á hlut að umferðarslysi eða öðru umferðaróhappi skal nema staðar, hvort sem hann á sök á því eða ekki. Hann skal enn fremur grípa til eftirfarandi ráðstafana, eftir því sem við á.“
Þór segir einnig að gatnamótin sem ákeyrslan varð á séu mjög flókin. Þrjár íbúðagötur komi inn á Löngulínu á mjög stuttum kafla með göngustíg í miðjunni. Svo er þar innkeyrsla í bílakjallara hjá Löngulínu 10.
„Þarna fara fjöldamörg skólabörn um á morgnana, gangandi og á hjóli,“ segir Þór.
Fleiri hafa bent á hættuna sem stafar af gatnamótunum. Meðal annars í færslu í hverfisgrúbbu.
„Skömmu áður voru skólabörnin mín í 1. og 3. bekk að hjóla þarna sömu leið í skólann. Vil ekki hugsa hvað hefði gerst ef þau hefðu orðið fyrir jeppa á þessum stað. Bílstjórar, hægið á ykkur, leggið frá ykkur símana. Það eru líf í húfi,“ segir áhyggjufullur faðir, sem hvetur fólk sem hafi upplýsingar um ökumanninn sem um ræðir að hafa samband við Þór. Klára þurfi svona mál gagnvart tryggingarfélögum og skrá óhappið í slysagrunn Samgöngustofu.