Nýlega birti fréttin.is frétt þess efnis að níu hælisleitendur hefðu hópnauðgað 16 stúlku í Reykjavík um páskana. Fréttir nokkurra miðla um þennan fréttaflutning í gær leiddu í ljós að hvorki lögregla né neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisbrota kannast við þetta mál.
Allt bendir til að fréttin hafi verið byggð á einu kommenti óþekktrar manneskju í umræðum á Facebook. Frosti Logason fer yfir þetta mál í þættinum Harmageddon. Hann fordæmir þennan fréttaflutning hjá Fréttinni og kallar hann hættulega sorpblaðamennsku.
Frosti segir fráleitt að fara út með frásögn af þessu tagi án þess að sannreyna hana hjá lögreglu. Auk þess sé kommentið sem fréttin er byggð á fráleit og lygilegt, t.d. segir að hluti hinna meintu nauðgara sé frá Tyrklandi, en fáheyrt er að Tyrkir sæki um hæli á Íslandi.
„Nútíminn myndi aldrei birta svona,“ segir Frosti og bætir við að málið hafi komið inn á borð Nútímans, sem hann stýrir, en ekki hafi komið til greina að birta frásögnina.
Margrét Friðriksdóttir er ritstjóri Fréttarinnar og segist hún hafa byggt fréttina á umræddu kommenti. Hún segist standa við fréttina og hefur ekki takið hana út.
Frosti segir að fréttaflutningur á þessu plani komi óorði á aðra litla fjölmiðla og fólki hætti til að spyrða þá saman. Einnig sé slíkur falsfréttaflutningur vatn á myllu þeirra sem fordæmi alla gagnrýni á fjölmenningu og óheftan innflutning fólks frá framandi menningarheimum.