fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fréttir

Myndband: Þjófur og búðarstarfsmaður í átökum – „Þetta þarf að stoppa harkalega, ekkert annað sem þýðir“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 28. apríl 2025 14:30

Fólki var brugðið vegna átakanna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndband úr öryggismyndavél verslunarinnar Nordic Market á Laugavegi sýnir starfsmann lenda í átökum við þjóf sem var að taka muni ófrjálsri hendi. Eigandi verslunarinnar segir þetta alls ekki einsdæmi. Þjófnaður og árásir á starfsfólk sé orðið daglegt brauð hjá verslunareigendum í miðbænum.

„Fólk hefur spreyjað á okkur táragasi, hent í okkur hlutum og hrækt á okkur,“ segir Þorgeir Guðmundur Þorgrímsson, einn af eigendum Nordic Market. Starfsfólki hafi verið hótað með hnífi, það hafi verið brotist inn um næturnar, tvisvar inn í fyrirtækisbílinn, skemmdir unnar á munum, ráðist á starfsfólk og margoft á dag reynt að hnupla úr búðinni. „Svo má maður ekki gera neitt. Hvernig á maður að geta haldið geðheilsu við svona aðstæður?“ spyr hann.

Mikill hasar

Í myndbandi úr öryggismyndavél sem birt var á samfélagsmiðlum sést þjófur, kona, koma inn í verslunina með bakpoka og tösku. Þykist hún vera að skoða gripi en laumar þeim í töskuna.

Kona sem var að vinna í versluninni tók eftir þessu, kom aðvífandi og reyndi að fá hlutina aftur. Þá skarst í brýnu á milli þeirra og þjófurinn komst undan með skarkala og hávaða. Eins og sést í myndbandinu var öðrum viðskiptavinum verslunarinnar mjög brugðið yfir þessu.

Búðahnupl
play-sharp-fill

Búðahnupl

Þorgeir segir að sumt af þessum brotum séu framin af skipulögðum glæpahópum. Sömu síbrotamennirnir gangi um göturnar án afskipta lögreglunnar.

Þjófi boðið að kæra eiganda

Hann segist hafa tilkynnt mál til lögreglu og sent myndir og upptökur úr öryggismyndavélum. Það hafi hins vegar litlu skilað. Tjón af þjófnaði sé meira en 10 milljónir króna á ári.

„Ég heyri ekkert frá lögreglunni til baka. Lögreglan er ábyggilega með þrjú þúsund mál á sinni könnu,“ segir hann. Lengi hafi mannekla lögreglunnar verið til umræðu og þetta séu einfaldlega afleiðingarnar af því. Þá sé afgreiðsla mál orðin öfugsnúin.

„Einu sinni hringdum við á lögregluna þegar það var verið að stela í búðinni. Hann var með fulla vasa af dóti og við stoppuðum hann. Vinur hans spreyjaði táragasi á meðeiganda minn sem hélt þjófnum. Þegar lögreglan kom á staðinn spurði hún hvort að þjófurinn vildi kæra okkur fyrir að halda honum,“ segir Þorgeir.

Einnig nefnir hann að maður hefði stolið 60 þúsund króna hátalara úr búðinni. Hann var handsamaður og látinn dúsa í steininum í nokkra daga en var búinn að selja hátalarann fyrir fíkniefnum. Aldrei fékk Nordic Market hátalarann eða andvirði hans til baka.

Ekkert sem réttlætir afbrot

Segir hann að það hafi varla neitt upp á sig að hringja í lögregluna lengur.

„Ég er eiginlega hættur að hringja á lögregluna. Ég nenni því bara ekki. Þeir eru búnir að gefast upp á þessu. Ekki nema það sé eitthvað svakalegt,“ segir Þorgeir. „Það vita allir af sálfræðingum, geðlæknum, læknum og meðferðarstofnunum og tólf spora samtökum. Það er ekkert sem að réttlætir afbrot. Þetta þarf að stoppa harkalega, ekkert annað sem þýðir.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sagt að sætta sig við skúr nágrannans þótt hann sé of nálægt lóðinni

Sagt að sætta sig við skúr nágrannans þótt hann sé of nálægt lóðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Amma og eins árs barnabarn slösuðust þegar fjölskylduhundurinn varð fyrir árás – „Mamma sýndi ótrúlega dirfsku í ólýsandi aðstæðum“

Amma og eins árs barnabarn slösuðust þegar fjölskylduhundurinn varð fyrir árás – „Mamma sýndi ótrúlega dirfsku í ólýsandi aðstæðum“
Hide picture