Erlendum ferðamanni sem dvaldi hér á landi var mjög brugðið eftir að olíu var hellt yfir bílinn hans. Óttaðist hann verulega um öryggi sitt.
Ferðamaðurinn greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Reddit. Einnig birti hann myndir sem sína olíubrák á bílnum.
„Einhver hellti olíu yfir bílaleigubílinn minn þegar ég heimsótti Ísland í fyrra,“ segir hann. „Bjóst ekki við að lenda í þessu á Íslandi.“
Hinn skuggalegi verknaður var framkvæmdur um miðja nótt og olli ferðamanninum óöryggi.
„Ég lagði bílnum mínum í Reykjavík, yfir nótt nálægt hótelinu mínu og kom að honum svona næsta morgun,“ segir ferðamaðurinn. Hann segist hafa farið til lögreglunnar og tilkynnt atvikið. „Ég fyllti út skýrslu og var þá sagt að einhver gengi um og væri að hella olíu yfir bíla.“
Segist hann hafa farið með bílinn á bílahreinsistöð en olían fór ekki af. Skilaði hann þá bílnum til bílaleigunnar og tók af honum ljósmyndirnar. „Bílaleigan reyndi líka að hreinsa olíuna af en það gekk ekki,“ segir hann.
Hefur málið vakið nokkurn ugg. Það er að einhver skuli ganga um og hella eldfimum vökva yfir bíla af handahófi í Reykjavík.
„Ég fékk áhyggjufullt augnaráð frá heimamönnum þegar þetta gerðist,“ segir ferðamaðurinn.
„Skrýtið, ég hef aldrei heyrt um eitthvað eins og þetta á Íslandi áður,“ segir Íslendingur í athugasemdum við færsluna.
Öðrum kemur þetta ekki á óvart.
„Skíthælar eru til alls staðar,“ segir einn. „Ísland er ekki eins og það var áður. HÍF,“ segir annar.
Einn segir að það geti ekki hafa verið Íslendingur sem gerði svona. En var honum svarað á þá leið að, í ljósi frétta frá Kópavogi, sé líklegra að Íslendingar kúki á bíla. „Auðvitað gerum við heimskulega hluti, eins og að kúka á bíla,“ segir hann.
Enn annar virðist kenna ungmennunum um þetta. „Unglingarnir maður, þeir eru eins alls staðar,“ segir hann.