fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fréttir

„Ég kynni mig stundum sem „trophy husband““

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 28. apríl 2025 10:30

Logi Bergmann

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Logi Bergmann Eiðsson, fyrrum fjölmiðlamaður, unir hag sínum vel í Washington í Bandaríkjunum. Þangað flutti hann fyrir átta mánuðum ásamt eiginkonu sinni, Svanhildi Hólm Valsdóttur sendiherra.

Halla Tómasdóttir forseti stakk upp á að hann kallaði sig „sendiherragæi“ eins og Björn Skúlason eiginmaður hennar hefur verið kallaður forsetagæi. „En mér finnst bara fínt að vera sendiherrafrú. Ég kann vel við þann titil, kynni mig stundum sem trophy husband og mörgum finnst það skemmtilegt. Bimbóið með þessari kláru,“ segir Logi í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1. Og starfinu fylgja ýmsar skyldur þó Logi fái ekki greidd laun fyrir.

„Ég þarf að sjá um þetta heimili því Svanhildur er nánast aldrei heima og svo þarf ég að sjá um dóttur okkar sem er í high school,“ segir Logi sem segir hjónin einnig bjóða í móttökur og hann leggi sig fram við að skapa tengsl. Það eru margir áhugasamir um Ísland, hafa komið þangað eða eru á leiðinni. Þá er minnst á Björk, Sigurrós, Bláa lónið, eldgos og fótboltaliðið.

Logi vinnur einnig þætti heima og heldur úti golfhlaðvarpinu Seinni níu ásamt Jóni Júlíusi Karlssyni. „Þá sit ég í fataherberginu og Jón er í stúdíóinu, svo kemur bara gestur og við tölum við hann. Maður umkringir sig jakkafötum með teppi á gólfinu og þá er maður góður.“

Hjónin þekktu til borgarinnar og höfðu heimsótt hana oft áður en þau fluttu þangað. Borgin sé í uppáhaldi hjá þeim og Logi segir bæði stórkostlegt og áhugavert að búa í Bandaríkjunum. Washington sé falleg göngu- og hjólaborg.

„Það er mikill gróður og engin háhýsi,“ segir hann. Borgin hýsir hinar ýmsu alþjóðastofnanir og snýst lífið þar að miklu leyti um stjórnkerfið. Þar eru líka skemmtileg söfn, á sem rennur á milli og mikil saga.

„Ég er miklu meiri Washington-maður en New York. Í New York geturðu ekki keyrt og eiginlega ekki gengið heldur en Washington er dreifðari, miklu grænni og þægilegri. Það eru minni læti og hún er stórkostlega skemmtileg.“

Logi rifjar einnig upp fjölmiðlaferillinn, sem segja má að hafi hafist með því að hann gerði námslokasamning við rektor Menntaskólans við Sund vegna lélegrar mætingar Loga.

„Hann sagði: Þó þú mætir í alla tíma eftir áramót muntu samt falla á mætingu í vor, svo það er kannski best að þú kallir þetta bara gott.“

Logi fór á vinnumarkaðinn í nokkurn tíma en fór svo í Fjölbraut við Ármúla, sem hann útskrifaðist ekki úr. „Það kom verkfall og þetta var allt á leið í skrúfuna, það voru endalaus verkföll.“

Faðir hans, Eiður Bergmann, var framkvæmdastjóri Þjóðviljans þar sem Logi fékk starf sem íþróttafréttamaður. „Ég var ráðinn í níu mánuði, svo átti ég að fara aftur í skólann en það var svo gaman. Svo eftir þessa níu mánuði vildi Mogginn fá mig í vinnu sem íþróttafréttaritari.“

Þar starfaði Logi í tæp fjögur ár og fór svo að starfa á íþróttafréttadeild RÚV. Næst var hann ráðinn á fréttastofuna og var þar í fjórtán ár. Menntunarleysið fór að þvælast fyrir Loga sem kveðst hafa logið sig inn í háskólann á sniðugan hátt. Þá var boðið upp á hagnýta fjölmiðlun sem diplómunám og þeir sem hefðu meira en fimm ára reynslu í fjölmiðlun gátu sótt um. „Það gerði held ég enginn ráð fyrir að bjáni sem væri ekki með stúdentspróf myndi reyna.“

Logi segist hafa kunnað margt sem kennt var svo hann fékk leyfi til að sleppa kúrsum og taka einingar í stjórnmálafræði. Hann fékk alltaf fyrstu einkunn og spurði hvort hann mætti ekki halda áfram í meistaranám í stjórnmálafræði. Ólafur Þ. Harðarsson stjórnmálafræðingur sagði að það væri ekki grundvöllur til að meina honum það. „Óli Harðar sagði við getum ekkert stoppað það. Svo bara hélt ég áfram með vinnu og útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum

Þurfti að eyða stórfé í tannviðgerðir en fékk enga miskunn frá Skattinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óhugnaður í Urriðaholti: Hafliði hrakti húsbrotsmenn á flótta

Óhugnaður í Urriðaholti: Hafliði hrakti húsbrotsmenn á flótta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa