Stefán Magnússon, gamalreyndur rekstrarmaður úr veitingabransanum, hefur verið ákærður fyrir meiriháttar brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri einkahlutafélaganna Steik ehf. og Gourmet ehf. Félögin eru bæði gjaldþrota en um var að ræða eignarhaldsfélög þekktra og vinsælla veitingastaða.
Steik var stofnað árið 2017 og tekið til gjaldþrotaskipta árið 2023. Félagið rak veitingastaðinn Reykjavík Meat sem nú er ekki lengur starfandi. Stefán er sakaður um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir tímabilið frá því í desember 2020 og fram í ágústmánuð árið 2022. Nema vanskilin samtals rúmlega 32,7 milljónum króna.
Stefán er einnig ákærður fyrir sams konar skattsvik í rekstri félagsins Gourmet ehf, sem rak veitingastaðinn Sjáland í Garðabæ, fyrir árin 2021 til 2023. Nema meint vanskil staðgreiðslu opinberra gjalda ríflega 68,3 milljónum króna og skattsvikin í heild nema um 100 milljónum króna.
Stefán rak einnig hlutafélagið Brunch ehf sem fór í þrot haustið 2023. Félagið rak Mathús Garðabæjar.
Málið gegn Stefáni verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. apríl næstkomandi.
Veitingastaðirnir Sjáland og Mathús Garðabæjar eru enn í rekstri í höndum nýrra rekstraraðila og eigenda.