fbpx
Sunnudagur 27.apríl 2025
Fréttir

Gróflega misboðið yfir „veruleikafirrtri“ auglýsingu SFS með ósmekklegu leikaravali – „Þetta er sjúkt“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 27. apríl 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auglýsing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hefur valdið töluverðu fjaðrafoki og eru samtökin sökuð um að hafa náð nýjum hæðum í veruleikafirringu, að hafa lesið herbergið vitlaust og um áróður sem sé byggður á ranghugmyndum. SFS er sagt hafa skotið sig rækilega í fótinn og sé leikaravalið einstaklega smekklaust.

Í auglýsingunni má sjá tvo Norðmenn gæða sér á fisk og tala um að þeir séu með gullnámu í höndunum. Roðið megi nota í krem, hausinn í fiskisúpu, beinin í lyfjavörur. „Allt þetta getum við notað“.

Þá segir hinn að þetta hafi Íslendingar gert árum saman. „En nú ætla þau að taka upp norska kerfið.“

Þá spyr hinn gáttaður: „Hvers vegna í ósköpunum?“ og fær svarið: „Ég veit það fjandinn ekki,“ en báðir virðast hreinlega orðlausir á þessu útspili íslensku ríkisstjórnarinnar.

Þarna er SFS að bregðast við fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda.

Íslendingar ættu að kannast vel við annan leikarann í auglýsingunni en það er Jon Øigarden sem lék eftirminnilega hinn spillta og gráðuga Jeppe í þáttunum EXIT sem fjölluðu um norska útrásarvíkinga. Þættirnir voru ádeila á spillingu, græðgi og veruleikafirringu auðmanna og þóttu svo grófir að RÚV var um tíma gert að fjarlægja þá af vef sínum vegna kvartana.

Skelfilegur áróður

Kvikmyndagerðarmaðurinn Ragnar Bragason skrifaði færslu um auglýsinguna á Facebook sem hann segir korter í siðleysi og minna helst á það versta sem var í gangi í góðærinu á Íslandi rétt fyrir efnahagshrunið 2008.

„Skelfileg auglýsing. Klént og illa afgreitt handrit en hefur samt kostað hálfan handlegg í framleiðslu. Kaldhæðnislegast er að það er „freudian slip“ í leiktexta eða: „Hér er möguleiki á að græða helling af peningum“ sem gæti verið slogan fyrir verstu afleiðingar kvótakerfisins, þ.e. hrun margra smárra sjávarþorpa á landsbyggðinni vegna græðgi er framkvæmd var undir merkjum „hagræðingar“. En það má þekkja þá sem drekka á þeim félögum sem þeir þekkja. SFS er að eyða tugum, ef ekki hundruðum, milljóna í auglýsingaherferð(ir) og áróður fyrir málstað sem ENGINN nema frændi þeirra hefur samúð með. Áróður sem er byggður á ranghugmyndum, rangfærslum og er korter í siðleysi. Þetta minnir á það allra versta sem var í gangi í bruðli og veruleikafirringu á tímabilinu fyrir bankahrun.“

Margir hafa deilt færslunni eða tjáð sig í athugasemdum. Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur, skrifar: „Firring í efsta stigi“

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segir að fjáraustur SFS í auglýsingar sé ekki að vekja samúð með málstað þeirra. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, hvetur leikara og aðra til þess að neita þátttöku í þessum áróðri:  „Það verða alltaf til manneskjur sem eru falar fyrir fé. Leikstjórinn, framleiðandinn, leikararnir og allir sem nálægt komu. Verum í hinni bylgjunni sem lætur ekkert kúga sig til hlýðni og allra síst peninga. Slíku fólki þykir ekki vænt um neitt. Vitandi ekki hvað er verðmætt og hvað ekki.“

Leikarinn Vilhelm Neto segist vera innilega sammála greiningu Ragnars og tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson segir þetta hverju orði sannara.

Gróflega misboðið

Fleirum er ofboðið í athugasemdum:

„Þetta er sjúkt“

„Korter í siðleysi? Ding dong – algert siðleysi og ekkert korter í“

„Svo langt var farið yfir strikið í þessari auglýsingu að ég hélt í fyrstu að hér væri um að ræða anti-SFS áróður. En nei og Herregud – hvað SFS er gjörsamlega tengslalaust við þjóðina sem á og leigir þeim kvótann. Sturlað.“

„Ógeðslegt“

„Með því heimskulegasta sem þessi söfnuður hefur sent frá sér – og er þá mikið sagt“

„Frekar korter yfir siðleysi“

„Það er kaldhæðnislegt og sem blaut tuska framan í íslenskan almenning er að nota einn af aðalleikurum Exit í þennan áróður, þar sem hann lék fjársjúkan kókaín neytanda“

„Þarna er verið að skjóta sig í fótinn“

„Óviðeigandi, siðleysi, korter í hrun stemning og sóun á peningum“

„Og í raun mjög í stil við allt ruglið að nota einn siðlausasta leikarann úr EXIT-þáttunum“

„Þetta er samt nokkuð samkvæmt sannleikanum, norskir sægreifar horfa einmitt öfundaraugum til Íslands. Þeir vildu óska að þeir gætu grætt jafn mikið og íslenskir kvótakóngar.“

 

SFS ekki að lesa salinn rétt

Oddný Harðardóttir fyrrum ráðherra skrifar langa færslu um málið. Hún segist ekki hafa horft á Exit-þættina en heyrt um þá.

„Heyrði af þeirra ógeðfellda söguþræði um spillingu og græðgi. SFS er ekki að lesa salinn rétt ef þau halda að auglýsingar með einum af aðalleikurum Exit-þáttanna muni gagnast þeim.“

Þvert á móti séu auglýsingarnar til þess fallnar að kveikja tilfinningu um óréttlæti og spillingu. Þetta séu ómálefnalegar auglýsingar þar sem samtökin tali niður til íslensku þjóðarinnar.

„Auglýsingar SFS vekja þvert á móti upp tilfinningu um misskiptingu, óréttlæti og spillingu. Þær eru ómálefnalegar og gefa til kynna að SFS haldi að þjóðin skilji ekkert og viti ekkert og ríkisstjórnin ekki heldur en SFS hafi gæfu þjóðarinnar í hendi sér sem verði minni ef veiðigjöldin hækka.“

Oddný minnir á að þetta snúist um hækkun veiðigjalda svo þau miði við markaðsverð en ekki verð sem útgerðin ákveður í raun sjálf.

„Mikilvægt er að muna í umræðunni að tillagan er um að hækka veiðigjald fyrir kíló af þorski úr 26 krónum í 45 krónur, þ.e. að miða við markaðsverð en ekki verð sem útgerðarmenn ákveða með verslun við sjálfa sig með veiðar og vinnslu á sömu hendi.

Til að setja tölurnar í samhengi þá leigja útgerðarmenn sjálfir frá sér kílóið af þorski á rúmar 500 krónur. Smábátaeigendur bjóða 100 krónur í kílóið og kvótalausar útgerðir bjóða 150 krónur á kílóið. Enda borgar það sig.

Breytingin sem er lögð til er með góðum afslætti fyrir litlar og meðalstórar útgerðir og er ekki umfangsmikil.“

Sjálf hefði Oddný viljað ganga lengra og hreinlega bjóða út aflaheimildir, hóflegt magn á ári hverju með tímabundnum samningum. Þannig væri hægt að fá fullt verð fyrir auðlind íslensku þjóðarinnar og loksins lægja öldurnar.

„Líklegt er að við höldum áfram að rífast um gjöldin á meðan undir er reikniformúla sem má efast um að sé sanngjörn.“

Hápunktur herferðar

Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar telur að auglýsinguna megi kalla listræna táknmynd firringar í samfélaginu.

„Ákveðinn hápunktur í herferð útgerðarinnar gegn leiðréttingu viðskiptagjaldanna. Auglýsingin er mjög fagmannlega gerð. Handritið er að vísu ekki gott en auglýsingin skartar útlenskum leikara, Jon Øigarden, sem svo kaldhæðnislega vill til að lék einn af fégráðugu drullusokkunum í norsku þáttunum Exit.“

Þessi áróður sé úr smiðju fólks sem finnst þrengt alvarlega að sér og rekstri sínum þrátt fyrir gífurlegan hagnað. Auglýsingin sé þessu fólki til háðungar.

„Fiskurinn í sjónum er ein af grunnstoðum samfélags okkar. Hann er eign okkar allra og við þjóðin eigum skýlausan rétt á að fá sanngjarnan hluta af þeirri köku.

Í stað þess að eyða tíma og peningum í þessa drýldnislegu sérhagsmunagæslu þá ættum við frekar að byggja upp eitthvað sem skiptir raunverulegu máli, eins og til dæmis langtímabæra þjónustu við börn og ungmenni í vanda. Þar ríkir alvöru neyðarástand.“

Heiðrún svarar gagnrýninni

Egill Helgason deildi jafnframt færslu Ragnars og fékk þá athugasemd frá Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS.

„Er það ekki einkennilegt að þú og fleiri fjasið yfir formi en ekki efni?
Hvernig væri að ræða efni málsins, norsku leiðina sem ráðherra vill fara? Minni verðmætasköpun, minni nýsköpun, hráefni flutt til Póllands óunnið, ósjálfbærar fiskvinnslur í Noregi o.s.frv.? Af nægu er að taka – jafnvel ríflega 60 blaðsíður af hugleiðingum frá SFS og þrjár álitsgerðir.“

Fréttin hefur verið uppfærð með færslu Jóns Gnarrs og viðbrögðun Heiðrúnar Lindar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?

Getur mikil neysla á kjúklingakjöti verið krabbameinsvaldandi?
Fréttir
Í gær

Dómur birtur í máli leigubílstjórans og félaga hans: Lét brotaþola borga fyrir farið heim eftir nauðgunina – „Af því hún vildi endilega vesen þetta kvöld“

Dómur birtur í máli leigubílstjórans og félaga hans: Lét brotaþola borga fyrir farið heim eftir nauðgunina – „Af því hún vildi endilega vesen þetta kvöld“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ríkissaksóknara gert að afhenda nafnlausan tölvupóst í heild sinni – sendandinn óttaðist hefndaraðgerðir

Ríkissaksóknara gert að afhenda nafnlausan tölvupóst í heild sinni – sendandinn óttaðist hefndaraðgerðir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óvenjulegt starf Frans páfa áður en hann gekk trúnni á hönd

Óvenjulegt starf Frans páfa áður en hann gekk trúnni á hönd