Yfirskattanefnd hefur staðfest þá niðurstöðu ríkisskattstjóra að hafna umsókn eldri manns um að skattstofn hans yrði lækkaður vegna mikils kostnaðar sem hann þurfti að greiða vegna tannlækninga en alls var um að ræða rétt tæplega eina og hálfa milljón króna.
Maðurinn fór þó ekki fram á lækkun skattstofns vegna upphæðarinnar í heild sinni en vísaði til ákvæða laga um að heimilt væri að fá lækkun á tekjuskattstofni vegna veikinda, slysa, ellihrörleika eða mannsláts.
Skattframtali mannsins, sem er á sjötugsaldri, árið 2024 fylgdi beiðni um lækkun á tekjuskattsstofni vegna tannlæknakostnaðar. Kom fram að farið væri til vara fram á lækkun á móti tekjufærðum styrk frá stéttarfélagi sem veittur hefði verið vegna mikils tannlæknakostnaðar á árinu 2023. Hefði kostnaður verið samtals ein og hálf milljón en þar af hefðu 1,1 milljón króna verið vegna kostnaðar við að rífa framtennur úr manninum og setja svokallaða brú í staðinn.
Fór maðurinn fram á lækkun tekjuskattsstofns vegna kostnaðarins við lagfæringu framtanna hans. Í umsókninni var því lýst að þegar fólk yrði eldra væri hætta á því að bein rýrnuðu í munnholi þannig að festing tanna minnkaði eða hyrfi. Hafi tannlæknir metið ástand hans þannig að ekki væri hægt að fresta því að fjarlægja framtennur og setja brú í staðinn. Umsókninni fylgdu gögn um kostnað.
Umsókn mannsins var synjað af ríkisskattstjóra meðal annars á þeim grunni að læknisvottorð hefði ekki fylgt umsókninni. Sömuleiðis var vísað til þess að ákvæði skattalaga kvæðu á um að lækkun tekjuskattstofns kæmi til álita ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát hefðu í för með sér verulega skert gjaldþol hjá einstaklingi. Fyrst og fremst væri litið til þess að til hefði fallið kostnaður sem einstaklingurinn hefði greitt sjálfur og væri umfram það sem teldist venjulegur almennur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar. Sýna þyrfti fram á útlagðan kostnað á viðkomandi ári, gera grein fyrir aðstæðum og leggja fram önnur gögn eftir því sem við ætti. Kostnaður teldist almennt ekki verulegur fyrr en heildarfjárhæð hans næði tvöföldum almennum kostnaði vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu á ári, sem væri 320.000 krónur hjá hverjum og einum en 210.000 krónur í tilviki aldraðra og öryrkja.
Almennt væri ekki veitt ívilnun vegna tannlækninga. Þar sem ekki hefði borist læknisvottorð frá tannlækni hefði ekki verið sýnt fram á að kostnaður vegna tannlækninga yrði rakinn til sjúkdóms eða slyss sem væri skilyrði ívilnunar og væri umsókn mannsins því synjað.
Maðurinn andmælti synjuninni og sendi í kjölfarið vottorð frá tannlækni sínum til ríkisskattstjóra en í vottorðinu kom fram að maðurinn hefði átt erfitt með að matast vegna verkja þar til að framtennur hans voru fjarlægðar og brú sett í staðinn. Ríkisskattstjóri hafnaði hins vegar umsókninni aftur og sagði að í vottorðinu kæmi ekkert fram um að umrædda meðferð mætti rekja til sjúkdóms eða slyss. Þar sem ekki væru veittar skattaívilnanir vegna tannlækninga væri því ekki annað hægt en að hafna umsókninni.
Í kæru sinni til yfirskattanefndar sagði maðurinn að aðgerðin hefði verið nauðsynleg. Krafðist hann þess að af heildarkostnaðinum yrði 1,1 milljón viðurkennd sem upphæð sem teldist verulega umfram almennan kostnað. Kostnaðurinn hafi reynst mikil byrði fyrir hann. Hann hafði þurft að taka út lífeyrissparnað og fá stuðning frá konu sinni. Til vara gerði maðurinn kröfu um að styrkur til hans frá verkalýðsfélagi vegna tannlækninga, 150.000 krónur, yrði undanþeginn skatti, enda hafi verið um að ræða endurgreiddan útlagðan kostnað.
Sagðist maðurinn hafa spurt gervigreindarforrit hvort tannlos hjá eldra fólki væri ekki merki um undirliggjandi sjúkdóm. Því hafi forritið svarað að slíkt væri mögulega merki um sjúkdóm. Játaði maðurinn því að lítið kæmi fram í vottorði tannlæknis hans en benti á að hægt væri að hafa samband við tannlækninn í síma og fá frekari upplýsingar.
Í niðurstöðu yfirskattanefndar segir að í skattframkvæmd hafi verið litið svo á að kostnaður vegna tannlækninga falli ekki undir ákvæði skattalaga, um lækkun skattstofns vegna ellihrörleika, veikinda, slyss eða mannsláts sem hafi skert gjaldþol viðkomandi verulega, nema um sé að ræða tannviðgerðir vegna sjúkdóma eða slysa.
Segir nefndin að í vottorði tannlæknisins komi fram að maðurinn hafi verið í viðamikilli meðferð vegna tannloss í efri góm. Hafi hann verið með verki og óþægindi þar sem framtennur hafi verið orðnar lausar þannig að hann hafi átt erfitt með að neyta matar. Hafi niðurstaðan verið sú að fjarlægja fjórar fremstu tennurnar í efri góm og smíða postulínsbrú á milli tanna. Segir nefndin að í ljósi þessa verði ekki talið að umrædd útgjöld geti að neinu leyti talist til óhjákvæmilegra útgjalda vegna veikinda eða slyss, enda komi ekkert fram um það í umræddu vottorði.
Kröfum mannsins um skattaívilnun vegna hins mikla kostnaðar við meðferðina var því hafnað af yfirskattanefnd. Varakröfu hans um að 150.000 krónu styrkurinn frá verkalýðsfélaginu yrði undanþeginn tekjuskatti var sömuleiðis hafnað á þeim grundvelli að um væri að ræða persónuleg útgjöld en ekki rekstrarkostnað.
Synjun ríkisskattstjóra á umsókn mannsins um skattaívilnun vegna hins mikla tannlæknakostnaðar var því staðfest að öllu leyti.