Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari er verulega ósáttur við það að RÚV hafi ekki birt á vef sínum sérstaka frétt um framboð hans til forseta Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) en hafi hins vegar birt frétt um framboð allra hinna fjögurra mótframbjóðenda hans. Veltir hann því fyrir sér hvort í þessu felist einhvers konar refsing fyrir gagnrýni hans á núverandi forystu ÍSÍ og þá ekki síst forsetann Lárus Blöndal og tengsl hennar við íþróttafréttamenn.
Brynjar Karl hefur verið umdeildur í gegnum tíðina. Hann hefur undanfarin ár verið þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu Aþenu en liðið féll úr úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð. Brynjar Karl var nýlega sakaður um að beita leikmenn sína ofbeldi. Hann þvertók fyrir það og svaraði ásökununum fullum hálsi og sagði að þvert á móti snérust sín störf í þjálfun um að valdefla stúlkur og ungar konur og þá einna helst þær sem byggju við bágar félagslegar aðstæður. Leikmenn Aþenu hafa staðið heilshugar á bak við Brynjar Karl og hann hefur í kjölfarið gagnrýnt forystu körfuknattleikshreyfingarinnar harðlega sem og forystu ÍSÍ.
Lárus Blöndal býður sig ekki fram til endurkjörs sem forseti ÍSÍ á þingi sambandsins sem fer fram um miðjan næstan mánuð. Fimm hafa sig boðið sig fram en auk Brynjars Karls eru það Willum Þór Þórsson, Olga Bjarnadóttir, Valdimar Leó Friðriksson, og Magnús Ragnarsson. RÚV birti sérstakar fréttir á vef sínum um framboð allra frambjóðenda nema Brynjars Karls.
Við þetta er Brynjar Karl vægast sagt ósáttur og fer ekki leynt með það í færslu á Facebook:
„Pælið í þessu: Í gær var síðasti dagur til að skila inn yfirlýsingu til framboðs forseta ÍSÍ. RÚV, ríkisfréttamiðill sem við greiðum öll afnotagjöld fyrir, birtir fréttir um alla forsetaframbjóðendur nema mig. Ég er búinn að vera hugsa, varla ætla þau hjá RÚV að afhjúpa sig en einu sinni og núna í kringum lýðræðislegar kosningar stærstu félagasamtaka á Íslandi.“
Brynjar Karl veltir fyrir sér hvort í þessu felist einhvers konar refsing:
„Er verið að refsa mér fyrir að hafa sagt eftirfarandi í forsetaframboðstilkynningu minni:
„Funny because it´s true. Reynsla mín af RÚV er engin önnur en Orwellísk.“