fbpx
Sunnudagur 27.apríl 2025
Fréttir

Amma og eins árs barnabarn slösuðust þegar fjölskylduhundurinn varð fyrir árás – „Mamma sýndi ótrúlega dirfsku í ólýsandi aðstæðum“

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 26. apríl 2025 17:01

Hin eins og hálfs árs gamla Elena og hundurinn Legó voru í göngutúr ásamt Eldeyju, ömmu Elenu, þegar Husky-hundur rak augun í þau. Myndina má sjá í fullri stærð í fréttinni. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karítas Eldeyjardóttir greinir frá því í Facebook-færslu, sem hún veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um, að móðir hennar, Eldey Huld Jónsdóttir, og Elena, eins og hálfs árs gömul dóttir Karítasar, hafi verið í göngutúr í gær með hund fjölskyldunnar, Legó, en hann er smáhundur af tegundinni Maltese. Kom þá hundur af tegundinni Husky, sem er töluvert stærri, auga á Legó og skipti engum togum að Husky-hundurinn réðst á litla hundinn. Móðir Karítasar slasaðist töluvert við að reyna að vernda Legó og í atganginum slasaðist litla stúlkan einnig, þó sýnu minna, en Legó slapp án meiðsla og þá ekki síst fyrir tilstuðlan Eldeyjar. Karítas segir málið sýna að það sé nauðsynlegt að taka það til alvarlegrar umræðu að grípa til aukinna ráðstafanna vegna hundategunda eins og Husky sem geti ef þær njóti ekki mikils aðhalds og strangra regla gerst árásárgjarnar af litlu tilefni.

Hin eins og hálfs árs gamla Elena og hundurinn Legó voru í göngutúr ásamt Eldeyju, ömmu Elenu, þegar Husky-hundur rak augun í þau. Mynd: Facebook.

Karítas segir árásina hafa verið ógnvekjandi og segir svo frá atburðum gærdagsins en móðir hennar var með Elenu í kerru og Legó í bandi:

„Hundurinn, sem var af tegundinni Husky, var bundinn úti, einn og gerði sér lítið fyrir – sleit sig lausan og hljóp beint í áttina að þeim. Þrátt fyrir hróp mömmu hljóp hundurinn beint að Legó, sem í skelfingu hljóp í kringum barnakerruna og festi sig. Mamma nær að grípa í hálsól Husky-hundsins til þess að vernda Legó og draga hann frá bæði honum og Elenu þegar Husky-hundurinn réðst að henni og beit hana í hægri hendi. Mamma öskrar þar til loks kemur út móðir eiganda hundsins, sem nær honum í burtu. Mamma reynir að ýta kerrunni með slasaðri hendi frá í kjölfarið og endaði það ekki betur en kerran valt á mölinni og Elena greyið endar með rispur í framan, en að öðru leyti alveg ómeidd.“

Hún segir að það hafi verið áfall þegar hún sá hvað blasti við þegar hún kom á staðinn og hrósar móður sinni fyrir viðbrögðin:

„Mamma sýndi ótrúlega dirfsku í ólýsandi aðstæðum og hringdi strax á lögreglu og í kjölfarið í mig. Það var vægast sagt áfall að koma að þessum aðstæðum, mamma með augljósa áverka á hendi, blóð á bæði buxum og peysu, Elenu með rispur í framan og litla Legó okkar skjálfandi en þó ómeiddan.“

Karítas segir að sjúkrabíll hafi komi fljótt á staðinn og flutt móður hennar á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hún hafi fengið stífkrampasprautu og sýklalyf. Eftir röntgen-myndatöku hafi komið í ljós beinbrot, í hægri höndinni, eftir hundsbitið og þurfi móðir hennar því að undirgangast aðgerð eftir helgi.

Þurfti ekki annað en að sjá hann

Karítas segir að það sé einna mest sláandi varðandi árásina hversu lítið þurfti til að Husky-hundurinn réðist á Legó og í kjölfarið hafi hún hugsað hvort það þurfi ekki að herða reglur um tegundina og aðrar sambærilegar hundategundir:

„Það sem slær mig er að Husky-hundurinn þurfti ekki meira áreiti en að sjá hana labba þarna með barnakerru og smáhund sem gaf ekki einu sinni frá sér hljóð. Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort ekki sé þörf á strangari reglum fyrir eigendur hundategunda á borð við Husky og ,,Sheffer“, því þetta er ekki fyrsta hundaárásin sem við mæðgur höfum lent í. Legó var áður bitinn af Sheffer hundi þegar hann var aðeins nokkra mánaða gamall og mamma hefur tvisvar lent í því að Husky-hundar komu og réðust á dýrin hennar á Kjalarnesi.“

Karítas segir hunda af þessum tengundum þurfa stíft uppeldi, mikla hreyfingu og öflugt eftirlit. Það megi ekki gerast að svona hundar sleppi lausir í íbúðahverfi. Það sé hennar ósk að ýtt verði undir upplýsingaskyldu ræktanda ákveðinna hundategunda, ásamt því að mæting á hundaþjálfunarnámskeið verði gerð að skyldu þar sem eigendur yrðu fræddir frekar um eðli og þarfir hundanna. Þetta þurfi að ræða alvarlega. Dýr, börn og samfélagið allt eigi það skilið.

Ekki tala niður tegundirnar

Í spjalli við DV leggur Karítas áherslu á að málið verði ekki nýtt til að tala niður Husky og aðrar sambærilegar hundategundir. Hún segir málið nú til skoðunar hjá lögreglu og búið sé að tilkynna það til Matvælastofnunar og Dýraþjónustu Reykjavíkur.

Það sé hennar ósk að færsla hennar komi af stað umræðum um hvort ekki sé tímabært að setja strangari reglur í tengslum við hundahald ákveðinna tegunda eins og t.d. Husky:

„Þrátt fyrir að vera mikill dýravinur, þá er því miður oft um að ræða mikla vanrækslu og vanþekkingu eigenda á hundum af þessum tegundum.“

Hún ítrekar það sem hún skrifar í færslunni um að komið verði  skyldu eigenda ákveðinna hundategunda til að sækja hundaþjálfunarnámskeið og upplýsingaskyldu ræktenda þegar kemur að hundum á borð við Schäfer og Husky:

„Slíkt gæti aukið þekkingu eigenda á þörfum þessara dýra og stuðlað að betri velferð þeirra.“

Karítas vill síðan að lokum minna á hvar ábyrgðin liggur þegar kemur að hundahaldi:

„Að lokum vil ég ítreka, að mínu mati liggur ábyrgðin alltaf hjá eigendum hundanna, ekki dýrunum sjálfum.“

Óhætt er að segja að færslan hafi komið af stað líflegri umræðu í Facebook-hópi um hundahald en meðal þeirra sem taka þar til máls er aðstandandi eiganda Husky-hundsins sem segir þau fjölskylduna ekki vera síður í áfalli yfir hegðun hundsins og fullyrðir að vel hafi verið hugsað um hann. Ljóst er þó að málinu er líklega ekki lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa

Myndband sýnir furðulegan árekstur strætisvagns og jeppa
Fréttir
Í gær

Harmleikurinn í Garðabæ: Margrét sögð játa að hafa beitt foreldra sína ofbeldi

Harmleikurinn í Garðabæ: Margrét sögð játa að hafa beitt foreldra sína ofbeldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Safnaði milljónum fyrir Geðhjálp á sextugsafmælinu sínu með tónleikum

Safnaði milljónum fyrir Geðhjálp á sextugsafmælinu sínu með tónleikum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“

Fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar misboðið vegna auglýsinga SFS – „Þorpin töpuðu. Þorpin urðu undir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rafmynt Trump hækkar duglega í verði eftir að hann lofar matarboði fyrir stærstu fjárfesta

Rafmynt Trump hækkar duglega í verði eftir að hann lofar matarboði fyrir stærstu fjárfesta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Nefið rotnaði af frægri leikkonu – Skuggaleg tískubylgja í lýtalækningum í Kína

Nefið rotnaði af frægri leikkonu – Skuggaleg tískubylgja í lýtalækningum í Kína