Reuters hefur séð skjölin og segir að samkvæmt þeim hafi rússneska ríkisstjórnin í hyggju að nota fyrirtæki, sem hún hefur lagt hald á, til sérstakra hluta.
Fyrirtækið sem um ræðir heitir Glavprodukt. Bandaríkjamaðurinn Leonid Smirnov, sem flúði frá Sovétríkjunum á áttunda áratugnum, byggði fyrirtækið upp en það vinnur með dósamat og er verðmæti þess talið vera 200 milljónir dollara.
Fox Business segir að fyrirtækið sé þekkt í Rússlandi fyrir niðursoðnar súpur, grænmeti, fisk og kjöt. Fyrirtækið var mikilvægur hluti af viðskiptaveldi Smirnov.
Vladímír Pútín gaf út forsetatilskipun í október sem að sögn Financial Times kveður á um að Glavprodukt og önnur fyrirtæki í eigu bandaríska fyrirtækisins Universal Beverage og Smirnov verði tekin yfir af rússneskum yfirvöldum.
Reuters segir að í fyrrnefndum skjölum komi fram að rússnesk yfirvöld ætli að nota fyrirtækið til að sjá rússneska hernum fyrir mat.
Í skjölunum kemur fram að haldlagning fyrirtækisins sé nauðsynleg til að tryggja stöðuga framleiðslu, þar á meðal fyrir þjóðvarðliðið og varnarmálaráðuneytið.