Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú tvær hópnauðganir sem talið er að þrír sömu mennirnir hafi framið gagnvart tveimur íslenskum konum með stuttu millibili.
Mennirnir eru sagðir hafa byrlað konunum á skemmtistaðnum English Pub í miðborg reykjavíkur og flutt þær í sömu íbúðina í Vesturbænum og brotið gegn þeim þeir. Konurnar eru ótengdar en lýsingum þeirra á atburðarásunum ber saman.
Mennirnir þrír eru evrópskir. Þeir hafa ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald en einn var settur í farbann. Sú ákvörðun lögreglu að krefjast ekki gæsluvarðhalds hefur vakið harða gagnrýni. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir í viðtali við Vísir.is það vera mjög undarlegt að mennirnir gangi lausir. „Þetta virðast vera stórhættulegir menn og það er mjög undarlegt að þeir gangi lausir. Lögreglan þarf að svara því hvers vegna það er. Þegar þetta varðar öryggi og öryggistilfinningu kvenna, þá er „af því bara“ ekkert svar frá lögreglu. Hún þarf að skilgreina það frekar og skýra frá því hvers vegna stórhættulegir menn ganga hér lausir,“ segir Drífa.
Einar Hugi Bjarnason lögmaður er réttargæslumaður beggja kvennanna, telur hann að eðlilegt væri að krefjast gæsluvarðhalds yfir mönnunum:
„Já, miðað við lýsingarnar og þær fara að mörgu leyti saman hjá þeim báðum, þá finnst manni mjög sérstakt þegar menn ganga svona fram með skipulögðum hætti, að það sé ekki beitt þessu úrræði, að frelsissvipta mennina. Það er gengið skemur hins vegar gagnvart einum, það er semsagt beitt farbanni gagnvart einum þeirra. Það er ekkert gagnvart hinum tveimur, þeir eru bara frjálsir ferða sinna. En farið fram á farbann gegn einum og þá er rökrétt að álykta að hann eigi mesta sök í málinu, en ég get þó ekkert fullyrt um það.“
Aðspurður segir Einar að hann telji að hægt væri að halda mönnunu í gæsluvarðhaldi bæði á grundvelli almannahagsmuna og rannsóknarhagsmuna. „Varðandi almannahagsmuni þá er það mjög knýjandi spurning sem lögreglan þarf að svara. Síðan er það spurning hvort rannsóknarhagsmunir réttlæti það að mennirnir gangi ekki lausir.“ – Segir hann að mennirnir gætu spillt rannsókn málsins, bæði með áreiti við brotaþola og með öðrum hætti.
Ekki náðist í Elínu Agnesi Kristínardóttur, yfirlögregluþjón á rannsóknarsviði lögreglunnar, við vinnslu fréttarinnar.