„Ég hélt fyrst að þetta væri kattarófétið í slagsmálum eða að draga inn fugl, það hefur gerst áður,“ segir Hafliði Ingason, fjölskyldufaðir í Urriðaholti, sem vaknaði upp við hávaða við heimili sinn um hálfþrjúleytið aðfaranótt miðvikudags.
Þegar Hafliði fór á stjá og kveiki ljós sá hann að menn voru að brjóta gler í íbúðinni. „Ég greip það sem var hendi næst mér til varnar og kveikti ljósin. Þá flýðu þeir.“
Hinir óboðnu gestir skildu eftir sig rúðubrot á þremur stöðum í húsinu, á svalahurð, eldhúsi og húsgafli. Upptökur úr myndeftirlitskerfi sýna þrjá grímuklædda menn athafna sig við húsið.
Hafliði segist hafa fyllst reiði þegar hann skoðaði skemmdirnar og myndefnið í kjölfarið. Það er vissulega óhugur í honum eftir atvikið en hann er meira reiður en hræddur. Hann segir lögreglu hafa komið með fljótt á vettvang og síðan verið með vakt á svæðinu kvöldið og nóttina á eftir.
Aðilar sem hafa skoðað myndefnið af skemmdarverkunum telja að mennirnir hafi ekki ætlað sér að ná í verðmæti heldur hafi þetta verið hótunaaðgerð, aðfarirnar líkist því að handrukkarar hafi verið að senda skuldara skilaboð. En Hafliði skuldar slíkum mönnum ekkert og hefur engin tengsl við slíka menn. „Aðgengi að húsum hér er oft ekki beint af götunni, það eru krókaleiðir inn á einhver bílastæði og eitthvað svoleiðis. Það er því auðvelt að villast á inngöngum,“ segir Hafliði, sem er nýlega fluttur með konu og börnum í hverfið. Hann telur, með öðrum orðum, að þarna hafi handrukkarar farið húsavillt. Málið er í rannsókn lögreglu.
Hafliði ber sig vel en viðurkennir að nokkur óhugur sé í sér vegna atviksins. „Ég viðurkenni alveg að þetta er óþægilegt. Sérstaklega var tilfinningin skrýtin þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Þetta er, hvað á ég að segja, svakalega random, bara einhverjir þrír grímuklæddir náungar og ómögulegt að segja í hvernig ástandi þeir voru og hvað þeir voru búnir að taka inn.“