Níu þingmenn Flokks fólksins og Samfylkingar hafa óskað eftir skýrslu frá atvinnuvegaráðherra um aðbúnað svína á Íslandi. Meðal annars vilja þingmennirnir vita hvernig gösun svína og halaklippingar samrýmist lögum um velferð dýra.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, er fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, sem beint er til Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
Óskað er eftir því að í skýrslunni verði meðal annars farið yfir hvernig gösun, hala- og tannklippingar svína samrýmist dýravelferðarlögum, hvaða aflífunaraðferðir séu notaðar í hverju svínasláturhúsi og hversu mörgum dýrum sé þar slátrað, hversu algengar hala-og tannklippingar séu og hvort Matvælastofnun hafi gripið til sekta eða annarra viðurlaga vegna brota á reglum um framkvæmd þeirra.
Á undanförnum árum hefur verið fjallað um aðbúnað svína í fjölmiðlum. Í frétt Vísis frá árinu 2023 var til dæmis greint frá því að eitt af fjórum svínasláturhúsum landsins notar gasklefa við aflífun svína, það er sláturhús Stjörnugríss sem er jafn framt það stærsta á landinu. Einnig framleiðir íslenska fyrirtækið Marel svínagasklefa með koltvíoxíiði sem settir hafa verið upp í sláturhúsum víða um heim.
Dýraverndunarsamtök hafa gagnrýnt þessa aflífunaraðferð harðlega enda veldur gösunin þeim streitu, ótta og andnauð. Það tekur svínin oftast hálfa mínútu að missa meðvitund svo hægt sé að blóðga þau en ef það dugar ekki er yfirleitt notaðar rafklemmur eða pinnabyssur til að slá þau út.
Í frétt Heimildarinnar frá árinu 2022 kom fram að halar nær allra grísa sem fæðist á svínabúum á Íslandi væru halaklipptir án deyfingar. Það er um 80 þúsund gripir. Einnig að það væru starfsmenn svínabúanna sem myndu framkvæma klippingarnar en ekki dýralæknar eins og lög geri ráð fyrir. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að þeir bíti hvorn annan í halann en halaklippingar geta valdið krónískum verkjum og sýkingum.
„Síðustu misseri hefur verið allnokkur umræða um aðbúnað og velferð svína og sláandi upplýsingar birst í fjölmiðlum um aðbúnað og meðferð svína á ræktunarbúum sem virðast ekki samræmast ákvæðum laga um velferð dýra nr. 55/2013, g reglugerð um velferð svína, nr. 1276/2014,“ segir í greinargerð þingmannanna.
Í lögum um velferð dýra sé kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Þar segi einnig: „Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Bent er á að samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti Matvælastofnunar um velferð dýra árið 2023 hafi komið fram fjölmargar ábendingar um að stofnunin þurfi að leggja meiri áherslu á að dýr njóti vafans þegar velferð þeirra sé ógnað. Vanda þurfi málsmeðferð en stíga þurfi fastar niður í málum þar sem brotið er á dýrum.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi fjallað um efni skýrslunnar og tekið undir ábendingarnar með áliti í ársbyrjun árið 2024. Endurskoða þyrfti lög um velferð dýra.
„Flutningsmenn telja nauðsynlegt að varpa ljósi á og upplýsa hvernig búið er að svínum en eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru tilkynningar vegna gruns um brot á lögum sem gilda um velferð dýra fáar enda búin lokuð og sýnileiki dýranna mjög takmarkaður,“ segir í greinargerðinni.
Einnig sé óskað eftir því hvaða rök búi að baki síendurteknum framlengingum á frestum fyrir framleiðendur til að uppfylla kröfur reglugerðar um velferð svína sem sett var árið 2014.
„Þá telja þeir einnig nauðsynlegt að fá fram rökstuðning fyrir því að hve miklu leyti hagkvæmnissjónarmið ræktenda ráði því hvort stjórnvöld innleiði metnaðarfyllri reglur um velferð svína eða framfylgi þeim sem þegar eru fyrir hendi,“ segir að lokum.