Þetta segir Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar skrifar Jón um mál séra Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM, sem komst í hámæli fyrir um einu og hálfu ári um það leyti sem ævisaga um hann kom út. Þótti bókin varpa ljósi á skuggahliðar í lífi hans, sérstaklega samband hans við unga drengi og hrifningu hans á þeim.
Jón segir í grein sinni að nútíminn taki sér refsivald yfir hinum dauðu. Styttur séu brotnar, bækur og mannorð fólks brennt í vítisloga ákærenda, óháð sönnunum um sök, og krafist að þeirra bíði sömu örlög og bannfærðra að kaþólskum sið á miðöldum.
„Sr. Friðrik Friðriksson, ástsælasti leiðtogi í íslensku æskulýðsstarfi, hefur orðið harðast úti í þessum nútímagaldrabrennum. Aðför að honum hófst rúmum 60 árum eftir andlát hans. Nú, tveimur árum síðar, er vert að gaumgæfa hvað ákærendur höfðu fram að færa og með hvaða hætti dómur var upp kveðinn yfir honum,“ segir Jón meðal annars og heldur áfram:
„Eftir útgáfu bókar um sr. Friðrik þar sem dylgjað var um kynhneigð hans, án þess að sýnt væri fram á sök af hans hálfu, settu þrír einstaklingar fram dylgjur um sr. Friðrik. Sr. Bjarni Karlsson auglýsti eftir fórnarlömbum og settist síðan ásamt sálfræðingi í stól rannsakanda, síðan saksóknara og loks dómara. Dómurinn var í samræmi við það sem við mátti búast af fólki með fyrirframskoðanir á málinu og því vanhæft til að fjalla um það auk þess að þekkja ekki til grunnreglna íslensks réttarfars.“
Jón segir að séra Friðrik hafi verið „dæmdur sekur“ án þess að gætt hafi verið lágmarksreglna réttarríkisins um rannsókn, gagnaöflun, málsvörn og sönnun.
„Sagt var að „hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að sr. Friðrik væri sekur um óviðeigandi háttsemi“. Það þýðir að lögfull sönnun liggur ekki fyrir. Baráttuna þurfti að reka gagnvart stórmenninu sr. Friðriki þótt hann hefði verið dáinn og grafinn í meira en 60 ár, og afrakstur verka hans órækur: mögnuð trúarljóð, KFUM og K, íþróttafélögin Valur og Haukar, skátasveitin Væringjar og karlakórinn Fóstbræður.“
Jón spyr svo hvað að mati séra Bjarna og Sigrúnar Júlíusdóttur sé hafið yfir skynsamlegan vafa.
„Ekkert annað en að þeirra mati óviðurkvæmilegar snertingar blinds aldurhnigins manns á drengjum. Ekki eru ásakanir um gróf brot, ofbeldi, frelsissviptingu, nauðgun eða neitt af því taginu. Eftirtekjan var að blindur maður hefði tekið unga drengi í fang sér, klappað þeim og kysst og þótti ekkert óeðlilegt við það á þeim tíma. Allt lá þetta fyrir meðan hann lifði og helstu forustumenn þjóðarinnar töldu rétt að hefja fjársöfnun til að reisa styttu af einum besta syni Íslands. Í þeim hópi voru forustumenn í öllum stjórnmálaflokkum, dómarar Hæstaréttar, biskupinn yfir Íslandi og ýmsir höfuðklerkar. Þessir menn hefðu ekki komið að þessu máli ef eitthvað misjafnt hefði verið talið hjá sr. Friðriki.“
Jón rifjar svo upp að hann hafi verið átta ára þegar hann kynntist séra Friðriki þótt samskiptin væru aldrei náin. Hann var staddur í Vatnaskógi þegar hann fékk mislinga og þurfti af þeim sökum að segja hann í séra einangrun. Segir hann að séra Friðrik hafi komið þar ítrekað meðan hann var í einangrun í herbergi hans.
„Viðvera hans og nánd var þægileg og mér styrkur í veikindum mínum. Ég kann ekki aðra sögu að segja af sr. Friðriki þann tíma sem ég þekkti hann en að mér hafi alltaf þótt nærvera hans þægileg og minnist þess alltaf, þegar 23. Davíðssálmur er lesinn eða sunginn, að það var í sérstöku uppáhaldi hjá sr. Friðriki að vísa til orðanna „jafnvel þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér“. Sr. Friðrik vísaði síðan til þess hve huggun og fullvissa væri mikilvæg þegar fólk lenti í erfiðleikum í umróti lífsins, sem ekkert okkar kemst hjá.“
Jón segir að eftir að aförin að séra Friðriki hófst hafi fjölmargir sem kynntust honum stofnað óformleg samtök til að fara yfir málið og kynna sér það til hlítar.
„Við teljum „hafið yfir skynsamlegan vafa“ að niðurstaða sr. Bjarna Karlssonar og Sigrúnar Júlíusdóttur sálfræðings sé yfirborðsleg, ófullnægjandi og röng. Enginn okkar varð þess nokkru sinni var að framkoma sr. Friðriks væri óeðlileg og fjarri fór því að um kynferðislega áreitni eða óviðurkvæmilega snertingu væri að ræða. Við viljum reyna að gera það sem í okkar valdi stendur til að leiða sannleikann í ljós.“