Íslendingar vita það manna best að það er erfitt að komast inn á fasteignamarkaðinn og kaupa sína fyrstu íbúð. En engu að síður tekst mörgum það með herkjum. Hvort sem það er með aðstoð ættingja, vegna þess að þeim tæmdist arfur eða vegna þess að þeim tókst að púsla saman réttu lánunum á rétta tímanum. Í umræðum á samfélagsmiðlinum Reddit lýsa Íslendingar því hvernig þeir komust inn á fasteignamarkaðinn.
„Mér líður eins og flestir fái fjárhagslega hjálp við fasteignakaup frá foreldrum sínum. Þið sem hafið fengið svoleiðis, báðuð þið um það og hversu mikið? Hvernig er best að nálgast (aflögufæra) foreldra sína með þetta?“ spyr einn sem vill komast inn á húsnæðismarkaðinn. „Hafiði lent í að systkini ykkar hafi fengið „lán“ með óljósum afborgunum en aðrir ekkert?“
Út frá þessum spurningum hófst umræðan. Hér er brot af þeim.
„Tengdó hjálpaði með 5% af kaupverði og á þar með þessi 5% í eigninni. Hann sá þetta sem fjárfestingu. Annað hvort kaupum við hann út þegar við getum eða hann fær sín 5% þegar við seljum. Eiginlega win win fyrir alla,“ segir einn maður. Hann segist vera þakklátur en að það verði samt svolítið erfitt að horfa á eftir 4 til 5 milljónum króna sem munu „hverfa“ þegar hann selur.
Annar segist hafa fengið öðruvísi hjálp frá tengdaforeldrum sínum. Það er að flytja heim til þeirra gegn vægri leigu.
„Þegar barnsmóðir mín var ólétt af fyrsta barni buðu tengdó okkur að flýja af leigumarkað og búa inn á þeim til að safna fyrir íbúð. Í framhaldi vann ég tvær vinnur og hún eina. Við borguðum uþb. 30þ á mánuði til tengdó svona fyrir hýsinguna og sáum um kvöldmatinn tvisvar í viku,“ segir hann.
Segir hann að parið hafi leyft sér 5 þúsund krónur hvort í vasapening á mánuði og þannig hafi þau náð að safna fyrir útborgun. Eftir 1 ár áttu þau fyrir útborgun með því að nýta séreignarsparnað í fyrstu kaup. Séreignin tók hins vegar 2 mánuði að losna og brúuðu tengdaforeldrarnir 1 milljón króna með láni þangað til.
„Svo aðstoðin sem við fengum voru þau forréttindi að geta búið utan leigumarkaðs til að safna auk þess að þau áttu sparnað sem þau gátu lánað okkur meðan við biðum eftir að búrókratíska kerfið gæti gefið okkur peninginn,“ segir hann.
Einn segist hafa notað arf sem hann fékk til þess að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
„Fékk 12 milljónir í arf þegar amma mín dó fyrir nokkrum árum. Ég notaði þennan pening til að kaupa 50m íbúð með verðtryggt lán,“ segir hann. Einnig hafi hann fengið aðstoð frá foreldrum sínum. „Nokkrum mánuðum síðar seldu foreldrar mínir eina íbúð sem þau áttu og gáfu mér 8 milljónir, sem ég setti beint inn á lánið.“
Segist hann enn þá skulda 30 milljónir króna en sé duglegur að borga af því. Hann búi einn í 50 fermetra íbúð og borgar 240 þúsund krónur í lán og allan rekstur íbúðarinnar. Hann væri að borga 300 þúsund ef hann væri í leiguíbúð.
Annar segist hafa verið heppinn með tímasetningu húsnæðiskaupa. Einnig að hann hafi getað safnað með því að leigja ódýrt húsnæði á landsbyggðinni.
„Leigði útá landi sem var töluvert ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu og var í vel launaðri vinnu á meðan (2015 til 2019) þannig að ég og konan náðum að safna ágætlega,“ segir hann. „Eins átti ég slatta í séreigna þar sem ég hef borgað í hana alla tíð og svo eftir að hafa notað séreignina mína og konunnar og allt sem við höfðum safnað ásamt 2 milljónum sem amma og afi mín megin gáfu öllum barnabörnunum fyrir útborgun þá náðum við að kaupa 110 fermetra íbúð 2019 rétt áður en allt stökkbreyttist.“
Parið borgaði út 6 milljónir króna og tóku 38 milljón króna óverðtryggt lán. Miðað við fasteignamatið eiga þau núna 50 prósent í eigninni. „Virkilega feginn að hafa keypt þegar við keyptum,“ segir hann.
Einn segist hafa fengið aðstoð frá foreldrunum en það hafi ekkert verið rætt neitt nánar.
„Það var nú bara einhver skilningur okkar á milli, án þess að við hefðum rætt það sérstaklega, að þau myndu aðstoða þegar þar að kæmi. Um leið og þar var ljóst að það besta í stöðunni í mínu lífi var að kaupa íbúð buðu þau mér hjálp að fyrra bragði og komu inn með einhver 7% af kaupverði,“ segir hann. „Það var svo sem aldrei rætt hvort þetta væri lán eða fjárfesting eða gjöf eða eitthvað annað, en ég á ekki von á að þau vilji neitt til baka.“
Einn segir að lífið hafi breyst eftir að hann fékk eigið þak yfir höfuðið. En það reyndist ekki þrautalaust.
„Faðir minn dó alskuldugur þegar ég var enn ungur, við þurftum að selja allar eignir hans til að greiða niður skuldir, ég fékk örlítið úr dánarbúinu og notaði allt saman ásamt mínum eigin pening til að fjárfesta í íbúð,“ segir hann. „Ég var fluttur út um tíma en flutti aftur til föður míns þegar íbúðin sem ég leigði var kippt undan mér. Hann lést stuttu seinna. Það leið talsverður tími þar til ég fékk eitthvað frá dánarbúinu, ég hafði ekkert öryggisnet og leigumarkaðurinn var að drepa mig, varð heimilislaus um tíma og lifði í bílnum ásamt kössum með öllum mínum eignum.“
Þegar húsnæðið kom gat hann byggt upp sitt líf.
„Lífið mitt breyttist eftir ég fékk mitt eigið þak yfir höfuðið, ég gat loks farið að byggja upp minn grunn, nú veiti ég öryggi fyrir syni mína eins og faðir minn gerði fyrir mig,“ segir hann.