Leigubílstjóri, Mohamed Ali Chagra, og félagi hans, Amir Ben Abdallah, voru í síðustu viku dæmdir í 2,5 ára fangelsi hvor fyrir nauðgun en dómurinn í málinu var birtur nú í kvöld á vefsíðu dómstóla.
Málið hefur vakið töluverða athygli, sérstaklega eftir að greint var frá því í febrúar að Ali Chagra væri enn að starfa sem leigubílstjóri hjá City Taxi þrátt fyrir að vera grunaður um nauðgun.
Dómurinn í málinu er mjög ítarlegur og langur en þar kemur fram að brotaþoli hafi verið ofurölvi þetta kvöld og var vísað út af skemmtistað. Dyravörður þurfti að styðja við hana á leiðinni út. Á eftirlitsmyndavélum fyrir utan skemmtistaðinn mátti sjá að brotaþoli datt upp við bifreið og skömmu síðar settist hún upp í bifreið.
Leigubílstjórinn var Mohamed Ali Chagra og hann ók brotaþola í bílskúr í Kópavogi þar sem félagi hans, Abdallah, var búsettur. Um þremur tímum síðar skutlaði Ali Chagra henni heim til foreldra sinna sem hringdu fljótlega í lögreglu.
Brotaþoli greindi frá því að hún hafi verið verulega ölvuð þetta kvöld og mundi slitrótt eftir atvikum. Hún mundi þó skýrt eftir að hafa séð skeggjaðan mann með bringuhár. Hún man eftir að hafa heyrt mennina ræða saman og að á einhverjum tíma hafi annar þeirra verið að eiga við hana samræði. Henni fannst þó eins og þeir hefðu báðir brotið gegn henni en var þó ekki viss.
Báðir sakborningar neituðu sök og báðir reyndu að mála upp mynd af brotaþola sem tálkvenndi sem hafi viljandi reynt að fá þá til lags við sig. Ali Chagra sagði að strax í leigubílnum hafi brotaþoli verið með vesen og káfað á honum. Hún hafi heimtað að hann reddaði henni bjór og hann því skutlað henni heim til vinar síns: „Af því hún vildi endilega vesen þetta kvöld.“
Svo hefði hann sjálfur farið í Hagkaup að kaupa smokka. Þegar hann kom til baka hafi verið ljóst að brotaþoli og félagi hans væru að stunda kynlíf. Hann hefði svo skutlað brotaþola heim. Fyrir farið rukkaði hann svo brotaþola um rúmar 5 þúsund krónur.
Abdallah sagði brotaþola hafa ítrekað reynt við hann og hann vikið sér undan því í fyrstu en loks látið undan. Hann sagði að Ali Chagra hefði líka haft samræði við brotaþola.
Báðir mennirnir breyttu framburði sínum ítrekað í yfirheyrslum, allt frá því að neita að brotaþoli hefði komið inn í bílskúrinn yfir í að halda því fram að samræðið hefði verið með samþykki og brotaþoli ekki eins ölvuð og af væri látið.
Dómari taldi þetta draga verulega úr trúverðugleika þeirra. Eins væri ljóst að þó að Ali Chagra neitaði að hafa haft samræði við brotaþola þá ætti stúlkan þó skýra minningu um skeggjaðan mann með bringuhár, en Abdallah hefur engin bringuhár. Þar með hlyti Ali Chagra að hafa fækkað fötum þessa nótt og hefði enga skýringu gefið á því. Loks hefði það ekki getað farið framhjá nokkrum að brotaþoli var ofurölvi þetta kvöld enda hafði hún vart staðið í lappirnar þegar hún settist inn í leigubílinn og þegar hún mætti á neyðarmóttöku morguninn eftir mældist enn töluvert af áfengi í blóði hennar.
Báðir voru því dæmdir í 2,5 árs fangelsi og til að greiða brotaþola 1,5 milljón hvor í miskabætur. Eins þurfa þeir að greiða verjendum sínum væna summu. Ali Chagra þarf að greiða 5 milljónir og Abdallah tæpar 5,4 milljónir. Eins þurfa þeir að greiða þóknun réttargæslumanns, 1,1 milljón á mann.