fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Svandís sér ekki eftir neinu – Vinstri græn hafi ekki átt „séns“ í stöðunni

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 24. apríl 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar-Græns framboðs fer yfir víðan völl í viðtali í nýjasta þætti Sjókastsins, hlaðvarps Sjómannadagsráðs. Þættinum er stýrt af formanni ráðsins Aríel Péturssyni. Í viðtalinu er Svandís spurð hvort hún sjái eftir því að flokkurinn hafi hafnað því að taka sæti í starfsstjórn, með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, síðasta haust, eftir að boðað var til kosninga, í ljósi þess að flokkurinn datt á endanum út af þingi. Hún neitar því að sjá eftir ákvörðuninni og segir stöðuna í aðdraganda kosninganna hafa verið orðna þannig að flokkurinn hafi í raun átt enga möguleika á því að komast inn á þing.

„Pólitík snýst í raun og veru bara um það að taka ákvarðanir. Þetta er endalaust spurning um að taka ákvarðanir. Maður tekur ákvarðanir um stórt og smátt.“

Lausnir

Svandís gerir síðan grein fyrir stöðunni sem þá var uppi í stjórnarsamstarfi hennar flokks við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokksinn áður en því var á endanum slitið:

„Undir svona kringumstæðum eins og þarna voru þar sem í rauninni var orðinn að mínu mati algjör trúnaðarbrestur í ríkisstjórninni milli forystumanna flokkanna. Ég hafði tekið við sem formaður VG fyrir viku þegar við erum komin í þessa stöðu. Við hittumst formenn flokkanna í stjórnarráðinu til þess að fara yfir stöðuna og hvernig okkur litist á tiltekin átakamál sem að voru þá á borðinu og það voru auðvitað málefni útlendinga, orkumál, ýmislegt sem við sáum að þyrfti að vinna með. Við Sigurður Ingi (Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, innsk. DV) töldum bæði að það væru til lausnir á því. Þetta er á laugardegi og á sunnudegi tilkynnir hann (Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, innsk. DV) okkur að hann ætli að slíta þessu.“

Svandís segir því næst frá viðbrögðum sínum:

„Mér krossbrá og ég hugsaði með mér þetta er ekki heiðarlegt. Að sitja með okkur á fundi og láta okkur tala um það hvernig hægt sé að laga hlutina og gera þetta svo svona.“

Rétt niðurstaða

Svandís segist hafa í kjölfarið tjáð þingflokki VG að ekki væru aðrir kostir í stöðunni en að taka sæti í starfsstjórn fram að kosningum eða að neita því. Síðarnefndi valkosturinn hafi orðið ofan á og hún telji niðurstöðuna hafa verið rétta:

„Hún er tekin náttúrulega á félagslegum grunni. Hún er tekin í þingflokknum. Ég held að það hafi verið rétt niðurstaða. Ég held að það hefði líka bara verið mjög erfitt fyrir okkur í VG að fara inn í kosningar verandi inni í þessari ríkisstjórn.“

Svandís minnir síðan á hversu erfið staða Vinstri grænna var orðin þegar flokkurinn hafnaði því að taka sæti í starfsstjórninni:

„Við vorum komin undir þessi fimm prósent ( í skoðanakönnunum, innsk. DV) um vorið. Rétt um það bil sem Katrín (Jakobsdóttir, innsk. DV) ákveður að fara í forsetaframboðið og við náðum okkur aldrei á strik. Eftir á að hyggja þá áttum við bara einhvern veginn ekki séns í þeirri stöðu að vera í þessari óvinsælu ríkisstjórn. Vera með þessi tilteknu mál á bakinu og vera alltaf undir þessum fimm prósent mörkum sem var alltaf umræðuefnið í öllum þáttum og alls staðar. Það var eiginlega bara strax: Já, VG nær ekki inn. Þannig að fólk byrjaði mjög snemma að hugsa: Það er ekki vel farið með atkvæðið.“

Svandís ræðir ýmislegt fleira í viðtalinu eins og t.d. æsku sína og uppvöxt, fyrstu skrefin í stjórnmálum, söknuðinn eftir föður sínum, Svavari Gestssyni, og hvað henni fannst um það tilstand sem fylgdi því þegar hann varð fyrst ráðherra þegar Svandís var á unglingsaldri. Þar að auki ræðir hún störf sín að sjávarútvegsmálum, í tíð sinni sem matvælaráðherra, og hvernig er að vera tekin fyrir í fjölmiðli í eigu aðildarfélaga í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Morgunblaðinu. Einnig ræðir hún um hvernig deilur um meðhöndlun hennar á hvalveiðimálum, þegar hún var í matvælaráðuneytinu, blasa við henni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Vardy kveður í sumar
Fréttir
Í gær

Sakaði frænda stjúpmóður sinnar um áreitni á veitingastað í Garðabæ – Hönd fór yfir rasssvæðið

Sakaði frænda stjúpmóður sinnar um áreitni á veitingastað í Garðabæ – Hönd fór yfir rasssvæðið
Fréttir
Í gær

Sólveig Anna segir sig úr Sósíalistaflokknum eftir svívirðingar – „Langt síðan ég hef séð svona mikið hatur á mér“

Sólveig Anna segir sig úr Sósíalistaflokknum eftir svívirðingar – „Langt síðan ég hef séð svona mikið hatur á mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hótaði að láta nauðga lögreglumanni

Hótaði að láta nauðga lögreglumanni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óhugnaður í Reykjanesbæ – Þrír menn ruddust inn á heimili

Óhugnaður í Reykjanesbæ – Þrír menn ruddust inn á heimili