Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagt sig úr Sósíalistaflokki Íslands. Hún greinir frá ákvörðun sinni í hópi Sósíalista á Facebook, Rauða þræðinum. Hún eigi ekki lengur heima í flokknum og geti ekki tilheyrt hóp þar sem „stemningin er orðin svona yfirgengilega biluð“.
Sólveig birtir með færslu sinni skjáskot af athugasemd frá Maríu Pétursdóttur, fyrrum formanni málefnastjórnar flokksins, sem sat auk þess á 2. sæti á lista Sósíalista í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu alþingiskosningum.
María skrifaði: „Já, hægrið eys þig, lofi Sólveig Anna, og þeir eru svo miklir illar að þeir halda að Gunnar Smári og fleiri sem eru þér ekki fullkomlega sammála séu bara svona vitlausir. Og það tístir bara og hlakkar í þér og þú heldur áfram að tala beint inn í öfga-hægrið og fasismann af því þú last það í einhverri fucking bók. Þú ert svo vandræðalega stolt af því að kunna að lesa þrátt fyrir að vera óskólamenntuð“
María spáði því að vegna Sólveigar Önnu og skoðanasystkina hennar sé flokkurinn dæmdur til að sitja á jaðrinum og malla í fasisma. Jafnvel starfsmenn Sólveigar Önnu séu farnir að tala gegn útlendingum. Sólveig sé svo að barma sér sjálf en hafi enga samúð fyrir jaðarsetta hópa.
„Þú ert í raun svo minni máttar að þú getur ekki annað en montað þig af því að hafa sært fólk. Þarft að stá salti í sárin líka. Þú ert svo stór manneskja.
Ég hef alltaf vitað að þú sért Turfisti en það að fara í þessa woke vegferð núna og reyna að kljúfa sósíalistaflokkinn ennþá meira.. Setur þig niður í mínum augum. Ég er ekki móðguð þó þér þætti það skemmtilegt en ég er bara leið yfir því að þú veljir að tala inn í fasismann og sért að tengja það við sósíalistaflokkinn.“
Sólveig og áhangendur séu nú að rústa góðu starfi sósíalista sem hafi meðal annars hjálpað henni að komast til valda í Eflingu. Sólveig sé enginn samherji með vinstrifólki.
„Svo haltu bara áfram að hlæja eins og einhver týpa úr lélegri hryllingsmynd. Þú ert leiðtogi fólks sem ég þekki sem elska að vera viðhlæjendur þínir en eru þekktir annars staðar fyrir að vera eyðileggjandi afl hvar sem þeir stíga niður fæti. Sumir eru byrjaðir að klappa fyrir þér hér á þessum þræði. Til hamingju með að eiga svona frábæra aðdáendur.“
Sólveig Anna hefur vakið athygli undanfarnar vikur eftir að hún steig fram og talaði gegn offorsi og upphrópunum þess hóps sem kallar sig woke en beitir í raun skoðanakúgun og yfirlæti í allri umræðu. Eins hefur hún talað gegn íslenskum femínisma sem hafi misst sjónar á markmiði sínu til að gæta hagsmuna yfirstéttarkvenna á kostnað láglaunakvenna. Sólveig segir um ummæli Maríu að það sé langt síðan hún varð vitni að svona miklu hatri sem beinist gegn henni sjálfri. Þó að henni þyki það leitt liggi nú fyrir að hún á ekki lengur samleið með Sósíalistaflokknum eins og hann er í dag.
„Það er dálítið langt síðan ég hef séð svona mikið hatur á mér. En í nokkur ár var þetta stemmningin víða. Að ég væri einhverskonar hættulegur glæpamaður – sem allt gott fólk ætti að hata. Það er undarlegt að sjá þessa skoðun lifa góðu lífi innan Sósíalistaflokksins á sama tíma og hún hefur að mestu gengið niður annarsstaðar.
Við að lesa svívirðingarnar, þar sem að ein af forystukonum flokksins líkir mér við fasista og segir mig tala gegn mannréttindum er mér ljóst að ég á ekki lengur heima í Sósíalistaflokknum. Það þykir mér leitt en við því er ekkert að gera. Nema að hætta í flokknum sem ég geri hér með. Ég get ekki tilheyrt hópi þar sem að stemmningin er orðin svona yfirgengilega biluð.“