Karlmaður hefur verið sýknaður af því að hafa kysst, káfað og þrýst sér utan í sextán ára stúlku á veitingastað í Garðabæ. Neitaði maðurinn sök og taldi dómari sannanir ekki nægar.
Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. apríl síðastliðinn en maðurinn var ákærður í fyrra fyrir atvik sem átti sér stað laugardaginn 23. júlí árið 2022.
Stúlkan, sem var þá sextán ára gömul, var á veitingastað í Garðabæ ásamt föður sínum og bróður. Átti hinn ákærði maður og hún samskipti bæði við barinn og síðar á dansgólfinu sem olli því að móðir hennar lagði fram kæru til lögreglunnar.
Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði stúlkan að hún hefði staðið við barinn þegar maðurinn hefði farið að snerta hana og reynt að kyssa hana. Hann hefði sagt henni að þetta væri í lagi þar sem þau væru ekki skyld en henni hafi fundist þetta mjög óþægilegt. Maðurinn er frændi stjúpmóður hennar.
Síðar hefði hann svo verið að dansa við hana á dansgólfinu og einnig sýnt af sér óviðeigandi hegðun. Það er snert á henni rassinn og þrýst sér upp að henni. Einnig hefði hann reynt að kyssa hana á dansgólfinu. Sagði hún að henni hefði fundist þetta svo óþægilegt að hún hefði frosið og ekkert sagt við manninn.
Í skýrslutöku neitaði maðurinn að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega. Hann sagðist hafa talað við stúlkuna við barinn en talið að hún væri eldri en tvítug þar sem hún hafi verið að drekka áfengi. Þau hefðu einnig kysst hvort annað við barinn en að það hafi verið vinakoss.
Hvað ásakanirnar á dansgólfinu varðaði sagðist maðurinn ekki hafa snert rassinn á stúlkunni í kynferðislegum tilgangi. Það hafi hins vegar orðið snerting í dansinum. Sagði hann að það hafi ekki verið ætlun sín að brjóta á stúlkunni og þótti það miður að upplifun hennar væri á þennan veg.
„Ákærði kvaðst hafa verið með hendur sínar á mjóbaki brotaþola og kannaðist einnig við að hendur hans hefðu farið yfir „rasssvæðið“ nokkrum sinnum í miðjum dansi en það hefði ekki verið í neinum „fjandsamlegum eða perralegum tilgangi“, heldur hefði þetta bara verið hluti af dansinum,“ segir í dóminum.
Eins og áður segir var maðurinn sýknaður af ákæru um kynferðislega áreitni og broti gegn barnaverndarlögum. Meðal annars var vísað í upptökur úr eftirlitsmyndavélum þar sem liti út fyrir að vel hafi farið á með þeim. Ekki hafi hann sést kyssa hana eins og honum var gefið að sök.
„Var dansinn, sem stóð í um fjórar mínútur, nokkuð fjörlegur og nokkrum sinnum fór hönd ákærða yfir rasssvæði brotaþola. Ekki er hins vegar með góðu móti hægt að sjá að ákærði hafi þrýst brotaþola upp að sér,“ segir í niðurstöðu dómsins.