Ekki er um að ræða neina venjulega hringferð því Edgley ætlar að synda hringinn í kringum landið.
Breski blaðamaðurinn William Hunter hjá Mail Online fjallaði um Íslandsreisu Edgley og fylgdist meðal annars með honum við æfingar.
Segja má að Edgley hafi fengist við stærri verkefni á ferli sínum. Árið 2018 varð hann fyrsti – og hingað til sá eini – til að synda hringinn í kringum Stóra-Bretland. Þá á hann á ferilskránni að hafa synt stanslaust í hinu þekkta Loch Ness-vatni í skosku hálöndunum í 52 klukkustundir.
Um þetta hefur hann skrifað bækur sem hafa vakið talsverða athygli, enda fáir íþróttamenn á þessari plánetu sem eru í jafn góðu líkamlegu formi og hann.
Verkefnin sem talin voru upp hér að framan eru öll mjög krefjandi en hitastigið í sjónum við strendur Íslands er ekki ýkja hátt í maí, yfirleitt í kringum 6-8 gráður við suðvesturströndina en lægra til dæmis fyrir norðan.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að Edgley æfi eins og brjálæðingur og endast sumar æfingarnar hjá honum í tólf klukkustundir á dag. Þá daga borðar hann líka mikið, eða um 10 þúsund hitaeiningar.
„Við munum byrja í Reykjavík og fara réttsælis í kringum landið þangað til við komum aftur til Reykjavíkur,“ segir hann í viðtalinu. Bátur, sem mun flytja vistir, mun fylgja honum alla leið en að öðru leyti verður hann upp á náð og miskunn veðurguðanna.
„Öldurnar geta orðið mjög háar og vindurinn mikill,“ segir hann meðal annars.
Það geta fylgt því ýmsir gallar að synda lengi í söltum sjónum og einn af þeim er svokölluð „salttunga“ – þar sem tungan verður skraufþurr og byrjar að morkna. Þessu lenti Edgley í þegar hann synti í kringum Stóra-Bretland. Lýsir hann því að hann hafi fundið „búta“ úr tungunni á sér á koddanum þegar hann vaknaði eitt sinn.
Straumar hafa líka áhrif og segir Edgley að þegar þeir eru hagstæðir þurfi hann að synda og hann muni nýta tímann til að hvílast þegar þeir eru óhagstæðir.
Ekki kemur fram í umfjöllun Mail Online hversu langan tíma Edgley ætlar sér í verkefnið, en ljóst má vera að það muni taka hann margar vikur, jafnvel mánuði, að ljúka því. Það tók hann til dæmis 157 daga að synda í kringum Stóra-Bretland en vegalengdin sem hann fór þá var töluvert lengri en hann fer í kringum Ísland í sumar.