fbpx
Þriðjudagur 22.apríl 2025
Fréttir

Verslingar verulega ósáttir við Guðmund Inga – „Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna“

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 22. apríl 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nemendafélag Verslunarskóla Íslands gagnrýnir, í umsögn sinni, harðlega frumvarp Guðmundar Inga Kristinssonar mennta- og barnamálaráðherra um framhaldsskóla. Segir í umsögninni meðal annars að frumvarpið gangi í berhögg við stjórnarskránna og muni skerða frelsi nemenda í framhaldsskólum til að móta eigin framtíð.

Frumvarpið hefur verið töluvert gagnrýnt en samkvæmt því á meðal annars að leggja minni áherslu á einkunnir í grunnskóla við inntöku nemenda í framhaldsskóla. Aðrir hafa á móti bent á að fleira skipti máli við menntun en bara einkunnir.

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Nemendafélag Verslunarskólans sendi umsögn sína til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem hefur frumvarpið til meðferðar, 14. apríl síðastliðinn en hún var birt á vef Alþingis á páskadag.

Bakgrunnur

Í umsögninni er vísað í greinargerðina með frumvarpinu. Vill nemendafélagið meina að þessi setning í greinargerðinni: „Mikilvægt er að jafna tækifæri nemenda í innritunarferlinu og að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi“ snúist um að framhaldsskólum verði gert kleift og í raun hvattir til að huga að samsetningu nemendahópsins út frá kyni og bakgrunni. Þessar áherslur er nemendafélagið alls ekki sátt við:

„Í stað þess sem menntakerfið snúist um að ná sem mestum námsárangri, eru önnur markmið, svo sem fjölbreytni nemendahóps sett í forgrunn. Þetta getur dregið úr sérstöðu og sérhæfingu hvers framhaldsskóla fyrir sig og aukið einsleitni skólanna. Það getur hæglega bitnað á námsanda og námsárangri. Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna. Hvers konar skilaboð eru það til ungs fólks að hæfni og dugnaður séu ekki þeir lykiláhrifaþættir sem ákvarði framtíðarmöguleika þeirra, heldur líffræðileg og félagsleg einkenni?“

Stjórnarskráin

Nemendafélag Verslunarskólans lýsir sig ósammála því sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að sértækar aðgerðir sem frumvarpið kveður á um og ætlað sé að bæta stöðu einstaklinga, þar sem á þá halli, séu í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar:

„Ef vilji löggjafans er með þessu að leyfa framhaldsskólum að brjóta gegn réttindum eins hóps með það markmið að bæta stöðu annars, þá er það í algjöru ósamræmi við grunnhugsun jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.“

Segir í umsögninni að nemendur sem muni á þennan hátt njóta „jákvæðrar mismununar“ muni glata virðingu og trúverðugleika. Jafnrétti eigi að vera til náms en nemendur eigi að komast áfram á eigin verðleikum og lausnin sé ekki sértækar aðgerðir til handa þeim nemendum sem höllum fæti standa heldur að laga „ónýtt grunnskólakerfi.“

Innritun

Þegar kemur að ákvæðum í greinargerð frumvarpsins um að horft skuli til annarra þátta en einkunna við innritun í framhaldsskóla eins og t.d. félagsstarfs og að námsárangur þeirra sem hafa ekki íslensku að móðurmáli skuli metinn öðruvísi er umsögnin ekki síður gagnrýnin. Einnig er vitnað í umsögninni til ákvæða í greinargerðinni um að markmiðið sé að vinna gegn einsleitni í nemendahópnum. Nemendafélagið telur þessi áform vera á villigötum og ganga allt of langt:

„Þrátt fyrir góðan ásetning um aukna fjölbreytni og inngildingu, gengur frumvarpið allt of langt í að veikja jafnræði, gagnsæi og trúverðugleika innritunarferlis framhaldsskóla. Þetta er ekki leiðin að jafnrétti, heldur hættuleg leið að pólitískri mismunun. Með því að fjarlægjast hlutlægar forsendur við innritun sem byggjast á hæfni og námsárangri, opnast því miður á gáttir fyrir geðþóttaákvarðanir.“

Styðja eigi frekar markvisst við þá hópa sem höllum fæti standa og þá ekki síst með því að efla til muna kennslu í íslensku fyrir innflytjendur.

Stjórna nemendafélögunum

Að lokum gerir Nemendafélag Verslunarskóla Íslands sérstaka athugasemd við ákvæði í frumvarpinu um nemendafélög en um breytingu er að ræða frá núgildandi lögum en samkvæmt ákvæðinu eiga nemendur að hlýða kennurum og starfsfólki í einu og öllu þar með talið í starfi nemendafélaga. Samkvæmt núgildandi lögum um framhaldsskóla sjá nemendafélög sjálf um að setja sér reglur um starfsemi sína. Telja verslingar þessi áform hreinlega vega að nemendafélögum og nemendum sjálfum:

„Hér birtist okkur enn og aftur yfirgengileg forsjárhyggja stjórnvalda, þar sem fullorðið og hálffullorðið fólk er barngert. Við leggjum áherslu á að stjórnendur skuli stjórna skólunum, kennarar kennslustundunum en nemendur eiga sjálfir að stjórna eigin félagslífi. … Við spyrjum því hvort það sé beinlínis markmiðið: Að hafa úrræði til að þagga niður í ungmennum og taka af þeim tækifæri til að bera ábyrgð og þroskast?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Samúðarkveðja Höllu forseta vegna fráfalls páfa veldur undrun – „Úff“

Samúðarkveðja Höllu forseta vegna fráfalls páfa veldur undrun – „Úff“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

„Við erum verkfæri sem Guð notar“

„Við erum verkfæri sem Guð notar“
Fréttir
Í gær

Frans páfi farinn á vit feðra sinna

Frans páfi farinn á vit feðra sinna
Fréttir
Í gær

Kennari á Akureyri segir grein Grafarvogsbúa um blauta drauma borgarstjórnar afhjúpandi – „Grafarvogsgremjan er þá eftir allt saman stéttahroki“

Kennari á Akureyri segir grein Grafarvogsbúa um blauta drauma borgarstjórnar afhjúpandi – „Grafarvogsgremjan er þá eftir allt saman stéttahroki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“