„Ég, að minnsta kosti, ætla mér að gera það sem pabbi talaði svo oft um: Halda áfram að gera gagn og vinna fyrir samfélagið. Það er það sem ég ætla að gera. Núna er ég að reyna að láta dagana koma þannig að ég sé að gera það sem er gott og rétt á hverjum degi. Núna er ég að sinna VG og það er náttúrulega óendanlega mikilvægt. Þar er vettvangur og verkfæri fyrir ákveðna samfélagssýn, bæði vinstrimennsku og svo umhverfis- og náttúruverndarmál. Í þessu liggja ofsaleg verðmæti,“
segir Svandís Svavarsdóttir, fyrrum ráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs.
Í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 segist Svandís hafa orðið hundsvekkt þegar hún áttaði sig á því að hún væri ekki á leiðinni aftur á þing. Hins vegar hugsaði hún fyrst og fremst um hvaða pólitísku áhrif það hafi í raun og veru að Vinstri græn skyldu detta út af þingi.
„Það þyrmir yfir mann á svona augnabliki. Ég er nú samt ekkert voðalega tapsár týpa. Þannig ég nennti ekki að dvelja í marga daga við þessa tilfinningu. Maður þarf bara, eins og einhver sagði, að snýta sér og hnýta undir kverk og æða aftur út í rokið. Það er ekkert annað að gera, það er bara þannig í lífinu.“
Svandís hefur upplifað mörg áföll persónulega, bæði sjálf og hennar nánustu. Það að missa vinnuna er ekki það erfiðasta sem hún hefur reynt að hennar sögn. Dóttir hennar, tónlistarkonan Una Torfa, fékk heilaæxli og þegar Svandís var matvælaráðherra greindist hún með brjóstakrabbamein.
„En það er mikil gæfa að eiga gott fólk. Það hefur gengið á miklu í fjölskyldunni, hvað varðar þessi heilsufarsmál. Una veiktist 2020 og pabbi um haustið. Þá auðvitað finnur maður það, þegar það kemur að einhverju svona eins og að missa vinnuna eða detta út af þingi, fyrir mig persónulega þá verður svoleiðis viðburður einhvern veginn í allt öðru ljósi þegar maður er búinn að ganga í gegnum svona hremmingar sem snúast um heilsufar. Það er allt svo afstætt. Það verður ekki áfall af þeirri stærðargráðu sem það er að veikjast alvarlega eða missa nákominn ættingja. Heldur bara viðfangsefni sem maður finnur út úr og setur undir sig hausinn.“
„Stundum er tilveran svo furðuleg og fáránleg,“ rifjar Svandís upp því sama dag og hún fór til læknisins að fá þá niðurstöðu að hún væri með krabbamein hafði verið boðuð vantrauststillaga á hana sem ráðherra. Hún hugsaði með sér að hún gæti ekki látið þingfundinn byrja án þess að hún væri búin að gera þingflokki sínum og forsætisráðherra grein fyrir því að hún væri nýbúin að fá í hendur veikindaleyfi.
„Vottorð um að ég ætti að fara heim til mín og safna mér saman fyrir þessi átök. Þannig að á leiðinni út, með þetta hangandi yfir mér, hafði ég samband við krakkana mína fjóra og bað þau að koma til mín heim, til að spjalla. Þau vissu náttúrulega ekkert hvaðan á sig stóð veðrið.“ Fréttirnar hafi verið börnum hennar mikið áfall. „Ég held að það sé oft meira áfall fyrir þau sem standa manni nærri heldur en mann sjálfan, því maður stendur sjálfur í miðju átakanna.“ Í sameiningu hafi þau gert tilkynningu fyrir Facebook og Svandís hringdi í Katrínu Jakobsdóttur, þáverandi forsætisráðherra, sem vissi að hún ætti tíma hjá lækni. „Við þurftum að vera búin að koma þessu öllu frá okkur fyrir klukkan þrjú.“ Inga Sæland, sem var þá í stjórnarandstöðunni, dró vantrauststillöguna sem hún hafði verið að undirbúa til baka.
„En þetta er til marks um það að maður getur ekki alltaf sorterað sína pólitísku og sína persónulegu tilveru. Venjulega myndi maður bara segjast þurfa nokkra daga til að leyfa þessu aðeins að setjast til. En ég gat ekki gert það, það var ekkert ráðrúm til þess.“
Svandís gegndi fjórum ráðherraembættum líkt og faðir hennar, Svavar Gestsson, sem lést í janúar árið 2021.
„Ég sakna hans náttúrulega endalaust. Við vorum ofboðslega miklir vinir og félagar. Hann var svo ötull, það var alltaf eitthvað í gangi og einhverjar pælingar. Hann var ofsalega mikill nútíma- og framtíðarmaður,“ segir Svandís sem segist ekki þurfa að hlusta á gömul viðtöl við hann til að heyra rödd hans. „Hann er bara inni í kollinum á mér. Ég þarf bara aðeins að anda og rifja upp og þá veit ég meira að segja líka stundum hvernig hann hefði brugðist við. Við töluðum svo mikið saman, alveg frá því ég var lítil stelpa. Það er svo gjörsamlega inngróið í mína tilveru að bara aðeins lygna aftur augunum og átta mig á því hvað pabbi hefði sagt.“
Svandís segir að henni þykir eftirsóknarvert að sýna hugreki: „En það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa. Lýsa því yfir að maður hafi ekki öll spil á hendi og sé stundum í þröngri eða erfiðri stöðu. En ekki bara það að ætla sér sigur í öllum stöðum.“
Svandís segist fara í aðgerðaham og ráðist í að leysa málin þegar framundan eru áþreifanleg verkefni. „Ég er ekkert laus við það að það geti fokið í mig og ég geti látið hvína dálítið hressilega í mér. Ég er oft að reyna að vera langræknari heldur en ég get, af því að ég gleymi svo oft af hverju ég varð reið,“ segir hún og hlær. „Af því að jafnaði þá finnst mér meira gaman að vera glöð heldur en óhress.“
Svandís talar einnig um sálufélaga sinn, eiginmanninn Torfa Hjartarson, en þau kynntust í Dómkórnum og fagna 30 ára brúðkaupsafmæli í haust.
„Ég átti annan mann þegar ég kom inn í Dómkórinn, sem er núna mikill vinur minn. Við vorum svo gæfusöm að vera miklir vinir og eigum saman tvö börn og sex barnabörn. Síðan þegar við Torfi drögum okkur saman þá verður okkur það báðum mjög fljótt ljóst að við erum sálufélagar. Það er voðalega vemmilegt að segja það, en það er samt þannig. Við höfum verið ofsalega gæfusöm. Okkar samband hefur verið ástríkt og skapandi og við höfum pælt alveg ofboðslega mikið og hlegið mjög mikið,“ segir Svandís sem segir lífsviðhorf sitt vera að það sé ákvörðun að elska. Þau hjónin séu oft á skjön við hvort annað en hafa áttað sig á því að það séu stóru línurnar sem skipti máli. „Við höfum ákveðið að elska hvort annað.“