Í aðsendri grein í Morgunblaðinu, undir yfirskriftinni Hvar er lækningin? furðar hún sig á því hvað meðferð við mænuskaða hefur tekið litlum framförum síðustu áratugina.
„Eins og ýmsir vita lenti dóttir mín, þá 16 ára gömul, í alvarlegu bílslysi, hlaut fjöláverka og lamaðist frá mitti. Þessi elskulega dóttir mín kvaddi í janúar sl. eftir að hafa verið lömuð í 35 ár. Í þessa áratugi fylgdist ég með af fremsta megni hvað gert var á alþjóðavísindasviði mænuskaðans og veit að taugavísindamenn um allan heim rannsaka taugakerfið mikið bæði fyrr og nú. Þrátt fyrir það hefur meðferð við mænuskaða ekki breyst frá því að dóttir mín lamaðist. Þá var meðferð þeirra sem hlutu umtalsverðan mænuskaða endurhæfing til sjálfsbjargar í hjólastól. Svo er enn 35 árum síðar,“ segir hún í grein sinni.
Varpar hún fram þeirri spurningu hvernig á því standi að ekki hefur verið mótuð lækningastefna fyrir þá sem lamast vegna skaða á mænu þrátt fyrir allar rannsóknirnar.
„Svar mitt er að alþjóðataugavísindasvið vanti hlutlaust forystuafl sem gengst í að láta grandskoða þá grunnvísindaþekkingu í taugakerfinu sem nú þegar er fyrir hendi með tilliti til samnýtingar. Þetta hlutlausa forystuafl ætti að vera Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO sem gæti nýtt til verksins hið geysilega vel menntaða unga vísindafólk í líf-, lækna- og tölvuvísindum sem veröldin hefur nú yfir að ráða. Málalokin yrðu stórstígar framfarir í meðferð/lækningu á sköðum og sjúkdómum í taugakerfinu, m.a. mænuskaða,“ segir Auður.
Hún segir að eftir mikla vinnu hafi við Íslendingar komið orðum eins og „önnur mein í taugakerfinu“, „lækning“, „mænuskaði“ og „lækning á fleiri meinum í taugakerfinu“ inn í aðgerðaáætlun WHO um taugakerfið 2022-2031.
Sjá einnig: Tókst að koma öllu taugakerfinu inn í aðgerðaáætlun WHO
„Það þótti mikill árangur enda bæði utanríkis- og heilbrigðisráðherra búnir að eiga fundi með Tetros Ghebreyesus framkvæmdastjóra WHO vegna þessa og Mænuskaðastofnun senda nokkur bréf til WHO stíluð á framkvæmdastjórann. En ekki er nóg að koma orðum á blað. Þeim verður að fylgja eftir með verkum. Á dögunum sendi því Mænuskaðastofnun enn eitt bréfið stílað á Ghebreyesus þar sem þess var farið á leit að WHO tæki að sér það forystuhlutverk í þágu taugakerfisins sem rætt er hér ofar.“
Auður bendir svo á í lok greinar sinnar að í maí verði hið árlega alþjóðaheilbrigðisþing haldið í Genf. Þar verði fulltrúar íslenskra heilbrigðisyfirvalda væntanlega. Biðla hún til Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra um að fylgja málinu eftir.
„Nú bið ég nýja heilbrigðisráðherrann okkar og hans ágæta fólk að leita eftir því við Ghebreyesus að hann skoði ofangreinda tillögu Mænuskaðastofnunar með opnum huga. Það vorum við Íslendingar sem komum orðunum um taugakerfið á blað hjá WHO og það er okkar mál að sjá til þess að þeim verði fylgt eftir með verkum.“