fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
Fréttir

Fær ekki að reisa litla virkjun á eigin jörð – Starfsmenn Skipulagsstofnunar og annars sveitarfélags sögðu ekki hafa verið rétt staðið að synjuninni

Ritstjórn DV
Mánudaginn 21. apríl 2025 12:30

Mynd. Vefur Hvalfjarðarsveitar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá ákvörðun Hvalfjarðarsveitar að synja landeiganda og íbúa í sveitarfélaginu um leyfi til að reisa litla virkjun í Kúhallará sem er að hluta á landi íbúans. Vildi hinn ósátti íbúi meðal annars meina að honum hefði verið tjáð af starfsmanni Skipulagsstofnunar og annars sveitarfélags að ekki hafi verið rétt staðið að afgreiðslu málsins af hálfu sveitarfélagsins. Sakaði íbúinn sömuleiðis sveitarfélagið um að hafa ekki gætt jafnræðis.

Um er að ræða svokallaða rennslisvirkjun. Umsókn íbúans var hafnað af sveitarfélaginu í apríl á síðasta ári aðallega á þeim grundvelli að ekkert deiliskipulag væri til staðar vegna framkvæmdanna. Íbúinn fór fram á endurupptöku málsins meðal annars á þeim grundvelli að ekki hefði verið gætt meðalhófs í málinu. Sveitarfélagið hafnaði því í ágúst. Kærði íbúinn málið þá til innviðaráðuneytisins sem vísaði því til nefndarinnar.

Álit annarra og ójafnræði

Í kæru sinni vildi íbúinn meðal annars meina að skort hafi á rökstuðning í synjun sveitarfélagsins. Í kærunni kom fram að aflað hafi verið álits nokkurra aðila, m.a. starfsmanna Skipulagsstofnunar og skipulagsfulltrúa í öðru sveitarfélagi um það hvort framkvæmdin væri þess eðlis að krafa um deiliskipulag væri réttmæt og/eða rökstudd og hafi umræddir aðilar ekki talið svo vera.

Hafi starfsmaður Skipulagsstofnunar bent á að sveitarfélagið yrði að hafa jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að leiðarljósi við afgreiðslu umsóknarinnar og að framkvæmdin væri þess eðlis að krafa um deiliskipulag væri ekki réttmæt. Bent var sömuleiðis á að Hvalfjarðarsveit hefði nokkrum árum áður, í samræmi við umsögn Skipulagsstofnunar, ekki krafist deiliskipulags vegna Hólabrúarnámu sem hefði þó falið í sér umfang bygginga og ásýndaráhrif langt umfram þau áhrif sem felist í þeirri framkvæmd sem um ræddi í þessu tilfelli, þ.e. örvirkjun. Þá sé fjöldi annarra framkvæmda í sveitarfélaginu þar sem veitt hafi verið leyfi án þess að gerð hefði verið krafa um deiliskipulag. Sýni þetta fram á ójafnræði við afgreiðslu umsóknarinnar.

Vildi íbúinn sömuleiðis meina að framkvæmdin samræmdist aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og að þar kæmi fram að farið skyldi fram á deiliskipulag eða eftir atvikum grenndarkynningu. Sagðist íbúinn hafa fengið þær upplýsingar að greinagerð með umsókninni fullnægði kröfum um grenndarkynningu.

Vel undirbúin og víst jafnræði

Hvalfjarðarsveit vildi vísa kæru íbúans frá nefndinni þar sem hún væri of seint fram komin.

Vildi sveitarfélagið meina að ákvörðun þess hafi verið vel rökstudd og vel komið fram á hvaða lögum og sjónarmiðum hún byggði.

Þegar kom að sjónarmiðum íbúans um að ekki hefði verið gætt að jafnræði í málinu vísaði sveitarfélagið til einu vatnsaflsvirkjunarinnar sem til staðar er í sveitarfélaginu en eins og áður kom fram vildi íbúinn reisa slíka virkjun. Sagði sveitarfélagið að vegna þeirrar vatnsaflsvirkjunar sem fyrir er hafi verið gert deiliskipulag áður en framkvæmdir hófust og sú virkjun sé minni en virkjunin sem kærandinn vilji reisa. Engar virkjanir séu í sveitarfélaginu þar sem ekki hafi legið fyrir deiliskipulag áður en fram­kvæmdir hafi hafist og þar með sé ljóst að fyllsta jafnræðis hafi verið gætt í málinu.

Vísaði sveitarfélagið sömuleiðis til þess að fleiri jarðeignir en land íbúans ósátta liggi að þeim hluta árinnar sem hann vilji virkja.

Smávirkjun

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að gögn málsins sýni fram á að það sé rangt að kæra íbúans hafi ekki borist innan lögbundins frests frá því að ákvörðun í málinu var tekin.

Vitnar nefndin í greinargerð íbúans vegna umsóknar hans um framkvæmdaleyfi. Þar kom meðal annars fram að rafmagnskostnaður á jörð hans væri hár og væri hans bær einn af fáum í Hvalfjarðarsveit sem ekki hefðu möguleika á að tengjast hitaveitu sveitarfélagsins í náinni framtíð. Lýsti íbúinn virkjuninni sem örvirkjun og væri áætlað afl 15–75 kílówött og væri hvorki þörf á virkjunarleyfi frá Orkustofnun né væri framkvæmdin tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar.

Vísar nefndin í skýrslu umhverfisráðherra um virkjanir og að samkvæmt henni teljist virkjun örvirkjun ef afl hennar sé minna en 11 kílówött en smávirkjun ef aflið sé allt að 200 kílówött. Almennt þurfi ekki virkjunarleyfi fyrir smávirkjunum en þó þurfi það undir vissum kringumstæðum. Segir nefndin umrædda virkjun vera smávirkjun sem ætluð hafi verið eingöngu til eigin nota.

Heimilt en ekki sambærilegt

Segir nefndin ljóst að framkvæmdin brjóti ekki í bága við aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar en þar komi meðal annars fram að heimilt sé að reisa litlar virkjanir til eigin nota án þess að afmarka landnotkun sérstaklega. Þó sé tekið sérstaklega fram að áfram verði gerð krafa um deiliskipulag eða eftir atvikum grenndarkynningu, þá þurfi framkvæmdaleyfi og/eða byggingarleyfi.

Þegar kemur að þeim sjónarmiðum íbúans að jafnfræðis hafi ekki verið gætt í málinu og aðrar framkvæmdir hafi verið leyfðar í sveitarfélaginu án deiliskipulags segir nefndin í sinni niðurstöðu að um sé að stjórnvaldsákvörðun sem veiti skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða. Þær fram­kvæmdir sem íbúinn vísi til, séu annað hvort ekki sambærilegar þeirri sem hann sótti um eða séu í öðru sveitarfélagi. Þá hafi hann vísað til Bugavirkjunar í Hvalfjarðarsveit en hún sé á deiliskipulögðu svæði.  Meginreglan sé sú að deiliskipuleggja beri svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar.

Verði því ekki séð að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar við afgreiðslu umsóknarinnar, segir nefndin.

Kröfu um ógildingu synjunar Hvalfjarðarsveitar á leyfi til að reisa umrædda virkjun var því hafnað sem og kröfu íbúans um að synjun sveitarfélagsins um endurupptöku málsins yrði sömuleiðis ógilt.

Í niðurstöðu nefndarinnar er ekkert minnst á það sem fram kemur í kærunni um að starfsmenn Skipulagsstofnunar og annars sveitarfélags hafi tekið undir sjónarmið hins ósátta íbúa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?

Kærastinn að sökkva ofan í hyldýpi hægri samsæriskenninga – Spyr hvað sé til ráða?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“

Strútur réðst á Boris Johnson – „Of fyndið til þess að deila ekki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Kona föst inni á salerni

Kona föst inni á salerni